Frost

Kæru bloggvinir

Þegar maður vaknaði í morgun var hrím á öllu. Það er nú samt rosalega fallegt og gott veður. Sól og bjart. Það var farið í að þétta gluggana í morgun. Vonandi að það blási eitthvað minna inn um þá eftir þessa aðgerð.

Í gærkvöld fórum við hjónaleysin á jólahlaðborð með vinnufélögum bóndans. Við höfum ekki farið á þennan stað áður, en þetta er víst mjög vinsæll staður. Það voru ekki nema 303 gestir. Flestir sátu í stórum sal, og svo sátu nokkrir í minni sölum. Þetta var eins og fuglabjarg. Ekki bætti nú úr skák að það var einhver hljómsveit sem spilaði allt of hátt. Það er ekki í fyrsta skipti sem við upplifum það. Virðist vera einhver tilhneiging hér í sveitinni. Og Danirnir virðast bara sætta sig við þetta. Það var borið fram óhuggulega mikið af mat. VIð sátum og átum frá kl. 19:00 til kl. 22:30. Og það kom stanslaust matur inn. Fyrir utan hávaðann og hitann sem var þarna inni, þá var þetta nú bara mjög fínt. Svo var auðvitað fjöldasöngur. Það er ómissandi á öllum dönskum samkomum. Ungfrúin var í pössun og það gekk ljómandi vel. Svo nú er engin afsökun fyrir að fara af bæ. Stelpan sem var að passa sagði allavega að hún vildi gjarnan passa aftur, svo þetta hefur nú sennilega ekki verið svo slæmt.

Dagmamman er öll önnur eftir að við töluðum við hana. Við vonum að það endist bara. Það er allavega voða munur að tala við hana núna.

Annars er nú allt með frið og spekt hér í Tiset. Allt gengur sinn vanagang.

Bóndinn hefur verið hálf farlama í bakinu eftir að hann fékk brenniofninn yfir sig um daginn. Hann er nú eitthvað að skríða saman aftur. Vinur okkar er búinn að sjóða nýjar lappir undir sílóið, svo það ætti ekki að geta oltið aftur.

Auður Elín var í myndatöku hjá dagmömmunni á föstudaginn. Það er víst gert einu sinni á ári. Hún vildi nú víst ekki brosa. En það verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út. Það var líka tekin mynd af hópnum sem er hjá dagmömmunni. Það er líka gaman að eiga mynd af þeim sem hún var með í fyrstu pössuninni.

Stefnan er svo að fara út á eftir og selja happadrættismiða fyrir íþróttafélagið. Þetta er nú ekki alveg uppáhaldið, en sem betur fer þurfum við ekki að fara á marga staði. Þetta snýst um að ljúka þessu af.

Jæja þetta er víst allt of sumt þessa vikuna

kveðja frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband