14.11.2010 | 14:30
Umhleypingar
Kæru bloggvinir
það er ekkert hægt að finna út úr veðurfarinu hér þessa dagana. Ýmist er kalt og hífandi rok eða skítakuldi. En þetta er víst það sem má búast við á þessum árstíma. Það var svo hvasst einn daginn þegar frúin keyrði heim, að hún hélt að bíllinn myndi fjúka af veginum. Það er alltaf rok í Esbjerg. Veðurfarið þar minnir mann ansi mikið á heimaslóðir.
Annars er allt við það sama hér á bæ. Ungfrúin á bænum heldur áfram að prófa þolinimæði foreldra sinna. Hún er líka farin að lemja. Lærði það víst af stelpu sem hún er með hjá dagmömmunni. Ekki nógu sniðugt. En þessi börn læra víst ýmislegt miður sniðugt hjá dagmömmunni. Það er ægilega skemmtilegt þessa dagana að fá vínber í bolla og labba með þetta út um allt og narta í. Hún rífur sig úr öllum inniskóm og finnst það auðvitað mjög fyndið. Hún er voðalega dugleg að hjálpa til við að tæma uppþvottavélina og þvottavélina. Er nú ekki alveg búin að fatta hvort það sé skítugt eða hreint í, en það er aukaatriði. Hún er voðalega þreytt seinnipartinn. Dagmamman er farin að láta hana labba við hliðina á barnavagninum þegar þær fara eitthvað út, svo hún þreytist nú örugglega eitthvað meira á því. Bóndinn keypti egg af dagmömmunni á föstudaginn. Hún er með nokkrar hænur í bakgarðinum. Samt býr hún mitt í bænum. En það er víst allt leyfilegt hér út á landi. Auður Elín er alveg hætt að fá pela. Virðist ekkert pæla í því. Næst á dagskrá verður víst að kenna henni að sofna ein. Það verður tekið á dagskrá fljótlega.
Í gær var svo farið í smá verslunarleiðangur eftir sundið. Það voru keyptar 5 jólagjafir. Alltaf gott að ljúka því af. Við hjónaleysin ætlum nefnilega að halda jólin í Danaveldi í ár og þess vegna þarf að koma gjöfunum í póst í byrjun desember. Helga Rut ætlar að koma og vera með okkur um jólin, svo það verður nú bara notalegt. Aldrei að vita nema maður skelli sér í messu. Það verður allavega ekki settur upp aðventukrans eða keypt jólastjarna, þar sem ungfrúin kæmist örugglega í þetta og yrði sennilega ekki betri af því. Það verður bara að hengja eitthvað upp í loftið í staðinn. Það er nú smám saman að koma meira jólaskraut í búðir á á verslunargötur. En sem betur fer er ekki allt orðið þakið af þessu. Danir byrja nú oftast snemma. Það verður sennilega erfitt að fá jólatré í ár, það er einhver kreppa í því. Það er verst að maður er búin að saga niður öll jólatrén í bakgarðinum.
Í morgun dreif húsmóðirin sig í mæðrahóp. Við hittumst ennþá, en ekki svo oft lengur, af því við erum allar farnar að vinna aftur. En það er voða gaman að sjá hvernig þessi kríli bara spretta og spretta og þroskast. Það er ein í vinnunni hjá frúnni sem er ennþá að hitta sinn mæðrahóp þó barnið hennar sé orðið 17 ára. Bóndinn er svo farin á fótboltaleik. Það er nú frekar leiðilegt veður, en hann fór vel klæddur svo ætli það reddist ekki. Það má ekki fara með regnhlífar inn á leikvöllinn, sennilega eru þeir hræddir um að maður stingi einhvern með þeim.
Í vikunni héldu Danir upp á Mortens dag. Man nú aldrei út af hverju þeir halda upp á þennan dag. En það hefur eitthvað að gera með biskup sem faldi sig hjá einhverjum öndum. Þess vegna borða þeir alltaf önd í tilefni dagsins. VIð nenntum nú ekki að elda önd í miðri viku en höfðum önd í gær með brúnuðum kartöflum og öllu tilheyrandi. Alveg herramannsmatur. Þetta er smá upphitun fyrir jólin. VIð eigum nú bæði hamborgarahrygg og hangikjöt í frystinum, svo við kvíðum ekki jólunum. Við skelltum okkur í flatkökubakstur í gær. Þetta gekk nú ekki eins vel og síðast. Eldavélahellan hitnaði ekki nógu vel. Það er voðalega erfitt að fá gamaldags hellur sem eru ekki með einhverju innbyggðu kerfi sem kælir plötuna niður um leið og hún hefur hitað mikið í langan tíma. En flatkökurnar heppnuðust nú ágætlega fyrir því. Tók bara lengri tíma.
Jæja held það sé ekki meira til tíðinda hér þessa vikuna.
Kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Heil og sæl
Alltaf gaman að heyra frá ykkur. Á bara að vera heima þessi jól ekkert að koma á klakann, það er svo sem ágætt líka minna tilstand. Það verður örugglega fjör hjá ungfrúnni um jólin og hún dugleg að taka til jólaskrautið. Mig minnir að við höfum nú bara sleppt jólatrénu þegar Steinunn var á hennar aldri.
Heyrumst vonandi fljótlega.
Kveðja úr Garðinum
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 17:15
Kvitterí, takk fyrir vikupistilinn.
Bryndís (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 21:54
Hæ og hó kæru vinir.
Alltof langt síðan ég hef kíkt hér inn - virðist hafa hætt að kíkja á bloggara þegar ég gaf sjálf upp öndina í þeim efnum :(
En virkilega gaman að lesa af ykkur fréttirnar hér og kíkja á myndirnar. Líst líka vel á þennan Mortens dag, a.m.k. þetta með að elda önd! Er nýorðin "fan" að andabringum - eitthvað sem ég borðaði aldrei áður, ja eða hafði ekki smakkað! Vonandi eigið þið yndisleg jól í Dk. þótt svo það hefði nu verið gaman ef þið væruð að koma á klakann því við verðum þar um jólin :D
Bestu kveðjur,
Kata og Co.
Kata (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 04:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.