28.11.2010 | 12:39
Vetrarveður
Kæru bloggvinir
þá er víst komin vetur hérna hjá okkur. Það hefur verið ansi kalt síðustu viku og slydda nokkra daga. Það hefur nú ekki fest snjó hérna hjá okkur. En hérna fyrir norðan okkur og austan hefur snjóað töluvert. Það er alveg ótrúlegt að það hefur verið talað um þetta í mánuð að það kæmi snjór fljótlega og fólk ætti að setja vetrardekk undir bílana og svoleiðis, en það er samt alltaf eins og þetta sé alveg glænýjar fréttir þegar kemur snjór og hálka. Við vonum bara að þetta verði til friðs eins og þetta er núna, bara jólalegt, en ekkert til vandræða. Maður klæðir sig bara í föðurlandið og ullarsokkana og þá er þetta allt í lagi.
Í dag kemur svo jólasveinninn til Tiset, það á nú að skella sér og kíkja á hann. Við fórum til Tønder i gær, það er bær þar sem er búið að byggja upp eins konar jólabæ, með fullt af jóladóti. Það var mjög gaman að skemmtileg stemning. Það var hægt að kaupa allt mögulegt og ómögulegt jólaskraut, en frúin fann nú ekkert venjulegt aðventukerti. Keypti nú samt bara eitthvað öðruvísi kerti. Það voru nánast eintómir Þjóðverjar þarna að versla. Enda vorum við nálægt þýsku landamærunum. Við enduðum svo á að fá okkur heitt kakó og eplaskífur. Það var mjög kalt, en rosalega fallegt veður. Auður sá jólasvein í fyrsta skipti og leist nú bara nokkuð vel á hann, brosti allavega til hans. Það er nú samt ekki mikið gert úr því að láta jólasveinana líta almennilega út. Þessi var bara í rauðum jakka og gallabuxum. Ekki beint jólalegur.
Á föstudaginn fórum við í verslunarleiðangur til Haderslev, það þurfti að versla síðustu jólagjafirnar og jólakjólinn á ungfrúnna. Nú vantar bara jólagjafir fyrir okkur skötuhjúin og krakkana. Það er frábært að geta lokið þessu af svona snemma, þá hefur maður allan desember til að hugsa um eitthvað annað. Við skreytum ekkert strax, finnst betra að bíða aðeins með það og hafa það þá aðeins inn í janúar. Erum þó búin að setja aðventuljósið út í glugga. Danir eru byrjaðir að skreyta og rífa svo allt niður á jóladag. Þeim finnst við nú örugglega verulega undarleg. En við erum nú orðin vön því.
Ungfrúin er dugleg að gera hluti sem hún á ekki að gera. Maður er eitthvað að reyna að virkja þessa óþrjótandi orku sem hún hefur til að láta hana hjálpa til. Það gengur nú misjafnlega. Gestadagmamman er alltaf að hrósa henni, henni finnst svo lítið mál að hafa hana. VIð höldum kannski bara að þegar hún er ekki heima hjá sér, hagi hún sér eins og engill, en þegar heim er komið þurfi hún að fá útrás fyrir óþekktina. Hún hefur verið að vakna á nóttinni þessa vikuna svo hefur hún komið upp í til okkar og verið öll á iði og við nánast ekki sofið. Hún virðist hins vegar alltaf vera gríðarlega morgunhress, þó hún hafi sofið illa. Hún er voða upptekin af tungunni á sér og jóðlar mikið og rúllar tungunni.
Bóndinn ætlar að setja inn myndir af heimasætunni á eftir. Það var verið að reyna að taka myndir af Auði í jólakjólnum, en hún er nú ekki mikið fyrir að sitja kyrr, svo það verður að reyna það betur seinna.
Jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Snemma beygist krókurinn - börnin haga sér alltaf best út á við en sýna svo foreldrum sínum í tvo heimanna! Það er a.m.k. okkar reynsla :D
Iss, piss ekki gef ég nú mikið fyrir jólasvein í gallabuxum!!!!!!!!
Smá öfund hérna megin yfir snjónum ykkar en það er þó a.m.k. aðeins að kólna núna svo þetta er í áttina. Bíð svo bara eftir að koma HEIM eftir 16 daga og þá er ég sko búin að PANTA snjó! :D
Kata (IP-tala skráð) 29.11.2010 kl. 03:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.