5.12.2010 | 14:18
Snjókoma
Kæru bloggvinir
hér hefur snjóað í allan dag, svo það er orðið ansi jólalegt. Það verður fróðlegt að sjá hvort maður komist vandræðalaust í vinnuna á morgun. Við búum sem betur fer við veg sem er ruddur um leið og snjóar af því að sjúkrabílarnir þurfa að geta keyrt. Svo er bara spurningin hvort hinir vegirnir séu ruddir. En það getur nú líka alveg verið að þetta verði allt á bak og burt á morgun. Það er voða erfitt að spá í veðrið þessa dagana. Veðurfræðingarnir eiga voða erfitt með að spá rétt allavega. Þegar þeir segja að það eigi að snjóa, þá gerist ekkert, en svo snjóar þegar þeir segja að það eigi að vera þurrt. Svo þetta er bara eins og að opna jólapakkana að líta út um gluggann á morgnana og sjá hvernig veðrið er.
Við fórum og heilsuðum upp á jólasveininn í Tiset síðasta sunnudag. Hann var nú allavega í rauðum buxum sá. En ekkert gríðarlega upprifinn. Auði fannst hann ekkert sérstaklega áhugaverður, en fékk poka með nammi og ávöxtum í. Hún er nú ekkert æst í sælgæti, sem betur fer, en át ávextina.
Í fyrradag var jólahlaðborð í vinnunni hjá frúnni. Við hittumst bara eftir vinnu heima hjá einum og borðuðum síld og rúgbrauð og svo svínasteik. Þetta var voða huggulegt og enginn dauðadrukkinn, allavega ekki þegar ég fór heim, enda fór ég snemma heim. Ef það hefur gerst eitthvað spennandi hefur það gerst eftir að ég fór heim. Bóndinn fór svo á jólahlaðborð með vinnunni sinni í gær. Þetta var svona jólahlaðborð og keila í keiluhöll í Haderslev. Það var víst alveg ágætt. Frúin komst ekki með af því að barnapían var upptekin. Í morgun var svo brunað í snjónum til Ribe að ná í kalkún á tilboði. Við lentum í því í hitteðfyrra að þeir voru uppseldir rétt fyrir jól, svo við þurftum að keyra út um allt að leita. Við áttum líka hamborgarahrygg í frystinum, en þegar betur var að gáð var hann orðinn frostskemmdur svo það þarf að panta nýjan hjá slátraranum. Það ætti nú að nást fyrir jól. Við eigum hangikjöt í frystinum, það er vacumpakkað, svo það ætti að vera í lagi. Þá vantar okkur bara skötuna. Það verður erfitt að nálgast hana hér. Þeir seldu reyndar saltfisk í Árósum þegar við bjuggum þar, svo kannski er hægt að redda sér á því. Annars höfum við nú bara yfirleitt borðað venjulegan fisk á þorláksmessu.
Í dag var svo farið í að pakka jólagjöfunum sem þarf að senda heim. Það vantar enn eitthvað smotterí, en þeir fara vonandi í póst í vikunni. Gott þegar það verður komið til skila. Maður er nú alltaf hálf stressaður yfir að senda með póstinum. Það er svo oft eitthvað vesen.
Ungfrúin er orðin þrælkvefuð enn einu sinni. Hún sefur hálf illa á nóttinni. Ef þessu fer ekki eitthvað að linna fer maður nú með hana til læknis. Þetta virðist engan endi ætla að taka. Hún er kannski bara ekki byggð fyrir danska rakann. Við hjónaleysin erum drullukvefuð líka. Svo það er svo sem ekki vön á góðu. Við keyptum dúkkuvöggu handa Auði í vikunni. Henni finnst mjög skemmtilegt að fylla hana með dúkkufötum, eða troða sér ofan í hana. En hún lærir nú sennilega fljótlega hvað á að gera við gripinn. Hún var mjög spennt yfir að sjá okkur pakka jólapökkunum áðan. Það verður gaman að sjá hvernig hún bregst við þegar hún fær sjálf pakka um jólin.
Bóndinn ætlaði að fara á fótboltaleik í dag, en af því hann er hálflasinn ákvað hann að vera heima. Enda ekki gaman að standa úti í kulda og snjókomu. Þeir sem eru að spila hljóta að vera vel búnir.
Kveðja úr jólalandi
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Heil og sæl
Alltaf gaman að heyra í ykkur. Vonandi reddast jólamaturinn og ég tala nú ekki um skötuna. Ætli það sé hægt að senda hana með pósti, haha. Hér er allt marautt en svolítið frost, mætti koma smá snjóföl fyrir jólin en bara smá ! Örfár gjafir komnar í hús en það er bara hefðin að gera þetta í desember. Heyrumst vonandi um jólin !!
Kveðja úr Garðinum.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 5.12.2010 kl. 14:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.