12.12.2010 | 11:28
Pestarbæli
Kæru bloggvinir
það hefur verið heldur lágt risið á mannskapnum hér í síðustu viku. Bóndinn veiktist síðustu helgi og hefur legið alla vikuna. Ungfrúin veiktist svo á sunnudaginn og hefur legið alla vikuna líka. Frúin hefur verið í slappari kantinum, en komið sér í vinnu alla vikuna, nema fimmtudag ,þá var hún algjörlega raddlaus, svo hún var heima. Við höfum hóstað í kapp við hvort annað. Á miðvikudaginn var okkur alveg hætt að lítast á bóndann og ungfrúnna, svo við fórum til læknis á fimmtudaginn. Þá kom í ljós að þau voru bæði með lungnabólgu, og frúin sennilega með snert af því. Svo öll fjölskyldan fékk sýklalyf og þetta er nú eitthvað að lagast. Auður Elín er allavega hitalaus i dag og bóndinn er eitthvað hressari líka. Við höfum aldrei á ævinni fengið lungnabólgu, en það er kannski ekki skrýtið að maður veikist í þessum kulda sem hefur verið undanfarið. Nú er hins vegar komin hláka. En það á að kólna aftur í næstu viku. Þetta er óttalega breytilegt eitthvað.
Það var nú drifið í í morgun að finna eitthvað jólaskraut fram. Það er nú ekki mikið hægt að skreyta af því að Auður er ansi dugleg að pilla við það. En eitthvað er nú búið að týna fram. Ætli maður reyni ekki að baka eitthvað smotterí næstu helgi. Það verður nú bara eitthvað rólegt. Við höfum nú aldrei verið neitt ofuræst í það. En ágætt að grípa aðeins í það.
Auður Elín er allt í einu farin að vilja drekka sjálf úr glasi og er þetta hin besta skemmtun. Hún drekkur allavega mikið meira en hún er vön. Hún hefur alltaf verið löt við það. Nú vill hún helst drekka í tíma og ótíma. Hún er nú hálfléleg að borða, svo það er gott að hún drekkur. Hún er líka farin að sofa betur á nóttinni aftur. Þetta var ansi strembið hérna síðustu vikuna, þegar hún var vakandi nokkra tíma á hverri nóttu. Hún er annars að breytast voða mikið þessa dagana. Skilur orðið mikið meira og er orðin betri að segja til, hvað hún vill. Það er nú samt ekki alltaf að við skiljum hvað hún vill. Hún er voða dugleg að hjálpa til við að rétta manni hluti, setja í þvottavélina og svoleiðis. Það er nú ekki víst að hún endist lengi við það, en er á meðan er. Við keyptum svona dúkkuvöggu handa henni. Það er nú mest dúkkuföt sem fá að liggja þar, og kannski ein dúkka undir öllu draslinu. En þetta kemur nú allt saman með tímanum.
Annars er nú frekar fátt að frétta hér. Enda vikan farið í að snýta, hrækja og hósta. Vonandi að þetta sé búið núna. Það er stefnt að því að Auður fari til dagmömmu á morgun, hún verður nú örugglega bara fegin. Ekkert skemmtilegt að hanga með okkur hérna heima.
Næstu helgi er svo Helga Rut væntanleg og kærastinn líka, það verður nú ekki leiðinlegt. Bóndinn er svo kannski að vinna þrjá daga í vikunni fyrir jól og svo í fríi milli jóla og nýárs. Þannig að þetta verður ábyggilega mjög fínt bara. Það er búið að panta hamborgarahrygginn, svo jólin klikka örugglega ekki í ár og kaupa kalkún fyrir áramótin. Svo er verið að athuga hvort við getum fengið smá skötu með Helgu. Það væri nú til að toppa þetta.
Jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.