19.12.2010 | 16:08
Kleinur og laufabrauð
Kæru bloggvinir
hér hefur aldeilis verið tekið til hendinni um helgina. Það er búið að steikja kleinur og laufabrauð og gera flatkökur. Við höfum aldrei steikt laufabrauð, en þetta gekk nú stórslysalaust og smakkast bara vel. Þær voru nú ekkert fallegar, en það getur nú ekki verið aðalatriðið.
Í gær kom svo Helga og kærastinn hennar, þau ætla að vera hér yfir jól og áramót. Auður Elín hefur nú verið eitthvað feimin við þau, en er öll að koma til. Hún er voða ánægð með að vera búin að fá systir sína í heimsókn. Þau voru nú alveg búin á því í gær og sváfu eftir kvöldmatinn í gær þangað til í morgun.
Við renndum svo til Þýskalands í dag til að kaupa jólagosið. Það var allt fullt af fólki þar að kaupa jólabjórinn. Við komum nú heim án þess að hafa slíkt með okkur. Svo verður keypt malt og blandað á jólunum. Ekki dónalegt það. Maður er eitthvað svo seinn með margt núna fyrir jólin. Við höfum alveg gleymt að gera ráð fyrir að við höfum ekki sama tíma núna og í fyrra, því það þarf að sinna barninu líka, ofan í allt hitt. Svo næstu jól verður maður sennilega að reyna að vera meira skipulagður. En þetta hefst nú sennilega allt saman eins og venjulega. Við erum nú ekkert að stressa okkur yfir jólaþrifum og slíkri vitleysu. Jólin koma þó það sé ekki allt bónað út úr dyrum.
Auður Elín er að þroskast voða mikið þessa dagana. Hún er t.d. farin að reyna að herma eftir öllu sem maður segir. Hún er búin að fá matarlystina aftur og tekur hraustlega til matar síns. Það er voða gott. Frekar erfitt þegar þessi grey borða lítið. Hún varð 18 mánaða í gær. Það verður að taka myndir af henni í vikunni. Það hefur bara ekki unnist tími til þess um helgina. Hún verður hjá dagmömmunni hálfan daginn núna fram á fimmtudag. Bóndinn er að keyra öðruvísi en hann er vanur og hefur því frí um miðjan daginn. Svo getur Helga passað hana þangað til frúin kemur heim úr vinnunni. Það hefur reyndar verið voða erfitt að komast til og frá vinnu þessa dagana. Það er fljúgandi hálka og þeir eiga ekki salt til að strá á vegina. Þeir reiknuðu ekki með vetri eins og í fyrra. Þannig að þetta verður eitthvað skrautlegt. Bóndinn lenti allavega í veseni á föstudaginn. Það var alveg gler yfir veginn og ekki hægt að keyra nema á mesta lagi 30 km hraða. Það er verið að tala um að lögleiða vetrardekk hérna, en margir eru mjög mikið á móti því. Mikið af því veseni sem er hér þegar það er snjór, er af því fólk er á sumardekkjunum allt árið. Og auðvitað líka af því að þeir kunna ekki að keyra í snjó og hálku.
Bóndinn vinnur þrjá daga í þessari viku og er svo kominn í frí. Frúin vinnur fram að hádegi á þorláksmessu. Það verður ekki leiðilegt að fá smá frí. Þetta er ansi lýjandi að keyra svona langt í vinnu á hverjum degi.
Tengdó sendi skötu með Helgu Rut svo þetta verða alveg ljómandi góð jól, allavega svona matarlega séð.Maður fær bara vatn í munninn við tilhugsunina.
Ef það er einhver þarna úti, sem ekki hefur fengið jólakort, þá sendum við okkar bestu jólaóskir til allra, með von um gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár.
Jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.