26.12.2010 | 09:19
Jólafriður
Kæru bloggvinir
Hér er bara afslöppun, enda lítið annað hægt að gera. Hér er ískalt, 15 stiga frost og í dag snjóar. Það er voðalega fallegt veður, en gott að maður þarf ekki að komast í vinnu. Við komumst hvorugt í vinnuna á þorláksmessu, það var svo rosalega hált. Þeir reyna ekki einu sinni að salta þegar það er svona kalt, svo það er öruggast að vera heima hjá sér. Við erum búin að njóta jóladaganna í botn með góðum mat og rólegheitum.
Við fengum margar góðar jólagjafir. Auður Elín var mjög hrifin af pökkunum og var dugleg að hjálpa til að opna þá. Hún var nú orðin ansi ringluð þegar við vorum búin að opna. Sem betur fer fáum við nú ekki svo marga pakka. Annars hefði hún nú sennilega verið orðin alveg uppgefin. Hún fékk legokubba frá okkur foreldrunum. Það er nú meira skemmtilegt að rífa þá í sundur en að byggja eitthvað úr þeim. En það kemur. Hún fékk líka hægindastól, og það er voðalega gaman að sitja í honum. Hún er auðvitað líka búin að prófa að standa í honum og hrynja aftur fyrir sig. Jólatréið hefur hún nánast alveg látið vera. Við höfðum reiknað með að það yrði allt tætt af því. Hún hefur smakkað ýmislegt matarkyns í fyrsta skipti.Hún fékk smá skötu á þorláksmessu. Það var nú ekki allir bitarnir sem fóru niður í maga, en eitthvað borðaði hún af því. Hamborgarahryggurinn var líka ágætur, en hangikjötið samt allra best. Hún fékk dúkkuvagn frá ömmu sinni á Hvolsvelli. Hún veit nú alveg hvað á að gera við hann, en samt er skemmtilegast að setja föt í hann og flytja þau svo yfir í dúkkurúmið. Hún er voða hrifin af Helgu og Ísaki og er alltaf eitthvað að væflast í kringum þau. Þegar hún veiktist um daginn var ákveðið að reyna að láta hana sofna sjálfa inn í herbergi. Það gekk rosalega vel, meðan hún var veik. Þá lagðist hún á koddann og sofnaði um leið. Þegar hún fór að hressast gekk það nú ekki alveg upp, svo nú situm við hjá henni í svona 10 mínútur og þá sofnar hún.
Það komu nokkrar jólabækur í hús um jólin, en það hefur nú lítið orðið úr að kíkja í þær. En það er nógur tími. Ef veðrið lagast eitthvað er stefnan tekin á að fara til Árósa milli jóla og nýárs. Nennum ekki að þvælast þangað ef veðrið er leiðilegt. Bóndinn hefur verið lasin um jólin. Honum hefur sennilega slegið niður eftir síðustu veikindi. Sennilega farið of snemma af stað. Hann er nú eitthvað að braggast, svo kannski verður hann tilbúinn fyrir áramótin. Það þarf nú sennilega eitthvað að sprengja, ef ég þekki hann rétt. Við höfum ekki prófað að skjóta upp hér í Tiset, svo það verður nú spennandi.
Það eru komnar inn nokkrar jólamyndir. Þær misheppnuðust nú eitthvað í ár, við vitum eiginlega ekki af hverju.
Njótið þess sem eftir er af jólunum
Jólakveðja
Gummi, Ragga og gengið
Athugasemdir
Heil og sæl og gleðilega jólarest.
Hér hafa verið sömu rólegheit og hjá ykkur. Bara borðað, spilað, lesið og sofið. Það snjóaði smá á Þorlák og það hélst þangað til í nótt en þá rigndi öllu burt. Engin vinna hjá okkur fyrr en 3. og 4. jan. nema hjá Stefáni, hann hefur verið að vinna hjá póstinum síðan í nóvember.
Kærar kveðjur frá öllum.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 27.12.2010 kl. 00:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.