Gleðilegt ár

Kæru bloggvinir

gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Það hefur nú heldur hlýnað hérna hjá okkur, það hefur verið hægt að ganga um á bolnum hérna inni. Það hefur ekki verið hægt síðasta mánuðinn. Við vonum að þetta kuldahret sé bara búið.

Bóndinn fór til læknis milli jóla og nýárs þar sem hann var svo slæmur af hósta. Hann var ekki með lungnabólgu, sem betur fer. Hann er allur að koma til. Ungfrúin var drifin til læknis með pabba sínum, hún var komin með lungnabólgu aftur og hefur verið veik milli jóla og nýárs. En hún er nú líka öll að koma til og er tilbúin að fara til dagmömmu á morgun. Stóru börnin hafa verið lasin líka, svo sú eina sem hefur staðið þetta af sér er húsmóðirin já og kötturinn auðvitað. Það hefur því verið lítið um að vera hér milli jóla og nýárs, annað en hósti og snýtingar. Vonandi að þetta sé búið núna.

Bóndinn keypti nokkrar sprengjur fyrir gamlárskvöld. Hann var nú að pæla í að sleppa því og horfa bara á hjá hinum, en ákvað að kaupa eitthvað smá. Við höfum ekki haldið áramót í Tiset áður, svo þetta var nú spennandi að sjá, hversu mikið þeir myndu skjóta upp. Framan af kvöldi var allt með frið og spekt, við fórum út að sprengja korter fyrir miðnætti og vorum með samviskubit, því við vorum þau einu sem vorum að sprengja. Korter eftir miðnætti vorum við svo komin inn og þá byrjuðu einhverjir að sprengja. Þetta var nú hvorki mikið né langvarandi. Svo við höfum sennilega aldrei upplifað jafn róleg áramót, hvað sprengjur varðar. Danir eru nú almennt mjög sprengjuglaðir, en greinilega ekki hér í bænum. Sem betur fer keypti karlinn sjálfur, svo við fengjum smá áramótafýling.

Í dag fara stóru krakkarnir svo heim. Það verður nú tómlegt þegar þau fara. Auður er alveg heilluð af þeim báðum og sérstaklega Ísaki. Hún hermir eftir allri vitleysunni í þeim og borðar næstum bara þegar hann er að mata hana. Það er ágætt að hún kemst til dagmömmunnar sinnar á morgun, svo hún hætti ekki bara að borða í mótmælaskyni.

Við hjónaleysin vorum nú svo myndarleg um daginn að við drifum í að gera rúllupylsu. Eigum nú enga pressu en redduðum þessu með þvingum og kökuformum. Þetta heppnaðist bara alveg ljómandi vel, svo þetta verður örugglega gert aftur. Þetta smakkast 100 sinnum betur en þessi svínarúllupylsa sem fæst hérna.

Jæja best að njóta síðasta frídagsins áður en vinnan kallar aftur

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt ár kæra fjölskylda, vonandi er heilsan orðin góð á bænum.

Kveðja

Hildur

Hildur (IP-tala skráð) 2.1.2011 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband