Hláka

Kæru bloggvinir

Hér er ennþá hlýtt veður, snjórinn er næstum alveg farinn og við söknum hans nú ekkert sérstaklega. Það gæti nú samt verið að við fengjum annað kuldakast, en við vonum það besta.

Hér hefur ýmislegt verið brallað. Það er búið að pakka niður öllu jólaskrautinu, frúnni finnst það nú alltaf ágætt þegar það er farið, en það vantar að vísu birtuna sem kemur af jólaljósunum. En það er nú heldur farið að birta hér á daginn, svo það hjálpar nú til. Ungbarnasundið byrjaði aftur í gær og Auði fannst það nú ekki leiðilegt. Hún er algjör brjálæðingur og hendir sér út í laug og líkar best ef það er eitthvað verið að djöflast með hana. Hún er allt í einu orðin æst í að opna alla skápa og skúffur. Hefur eiginlega alveg látið þetta eiga sig. Þetta er nú frekar hvimleitt, sérstaklega þegar hún kemst í ruslatunnuna. En vonandi vex hún nú frá þessu. Hún hefur verið voða þreytt þessa vikuna, hefur eflaust þótt erfitt að komast í rútínu aftur, eins og okkur fullorðna fólkinu. Hún er orðin duglegri að borða, en er alveg afleit að sofna á kvöldin. Spennir sig alla og vill alls ekki gefa eftir. Hún er eflaust bara að prófa þolrifin í foreldrum sínum. Hún er búin að finna upp á nýjum leik. Það gengur út á að sitja í sófanum með tvær körfur, með ýmsu smádóti, og flytja hlutina frá einni körfu í aðra. Hún er líka vitlaus í allar dýrabækur, sem betur fer á hún nokkrar. Hún segir voff, voff þegar hún sér hunda og öf öf þegar hún sér grísi. Henni finnst líka óskaplega gaman að troða sér ofan í dúkkuvaginn sinn og standa þar. Vandamálið er svo bara að vagninn stendur ekki kyrr og hún flaug á hausinn í vikunni, en hún lætur sér nú ekki segjast og heldur áfram uppteknum hætti. Skilur ekkert í að foreldrar hennar séu svona stressaðir og tæpir á taugum.Henni finnst ægilega sniðugt að leika sér með síma, ef hún finnur svoleiðis, þá setur hún hann upp að eyranu og segir halló.

Í dag dreif frúin sig svo á útsölu inn í Gram. Það var allt kjaftfullt og biðröð í að máta og borga, en hún keypti allavega buxur og 2 boli. Hún átti ekki nema einar buxur, svo það var komin tími á að endurnýja þær. Svo dreif hún sig í að skipta um rennilás á tveimur jökkum frá bóndanum. Að vísu komst hún að því þegar hún var búin að sauma annan rennilásinn á, að það var brotin í honum tönn, svo það þarf að rekja það allt upp aftur. Ef það er eitthvað sem fer í geðið á mér, þá er það eitthvað svona. Maður þarf að manna sig upp í þetta í nokkra daga og svo heldur maður að þetta sé búið, en nei, þá þarf að byrja upp á nýtt. Hinn jakkinn gekk svo stórslysalaust fyrir sig sem betur fer.

Meðan frúin froðufelldi yfir saumaskapnum kom bóndi hér úr nágrenninu við. Hann hefur verið einn af fáum hér í Tiset sem hefur talað við okkur af fyrra bragði. En erindið var nú að biðja okkur að koma og segja frá Íslandi á einhverjum bændafundi í næstu viku. Frúin gat ómögulega sagt nei, af því hann hefur verið svo almennilegur við okkur. En hrifin af því var hún nú ekki. Þetta eru nú sem betur fer ekki nema 9 manns, svo þetta hlýtur að reddast. Svo maður lætur nú plata sig út í ýmislegt.

 

Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili

kveðja

Ragga, Gummi og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband