23.1.2011 | 11:19
Stígvélaða dóttirin
Kæru bloggvinir
þá er víst kominn bloggdagur. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt. Hér hefur heldur hlýnað undanfarið, en í staðinn fyrir snjó og hálku höfum við oft þoku á morgnana og seinnipartinn. En það er nú betra en snjór og hálka. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvernig þetta þróast. En vonandi samt að við fáum ekki meiri vetur.
Hér gengur lífið annars sinn vanagang. Ungfrúin fékk hita á föstudaginn og var heima þann daginn, hún hefur svo bara verið með 1 og tvær kommur í gær og í dag, svo þetta hefur sem betur fer ekki verið neitt alvarlegt. Hún hóstar töluvert á nóttinni og er með hor. Við reiknum því með að þetta sé bara smá kvef og við lendum ekki í lungnabólgu aftur. Hún hefur verið óþekk hjá dagmömmunni líka þessa vikuna. Dagmamman skildi nú bara ekkert í þessu. Auður og önnur stelpa þarna hjá dagmömmunni eru á svipuðum aldri og álíka uppátækjasamar, svo þær bralla ýmislegt saman. Hérna heima er skemmtilegast að príla upp á eldhúsborð. Frúin var að máta á hana regngalla í gær og þá fann hún gúmmístígvél. Það var ekki lítið gaman að reyna að klæða sig sjálf í þau og þramma á þeim út um allt. Það er náttúrlega fínt að hún reynir að læra að bjarga sér. Hún mátaði regngallann og var voða spennt yfir þessu. Vildi ekki fara úr honum aftur. Veit nú ekki hversu mikiið börnin fara út í rigningu, en hún verður að eiga regngalla barnið. Svo þarf víst að fjárfesta í nýjum gúmmístígvélum. Þeim fyrstu, því við höfum fengið hin notuð. Engin ástæða að kaupa rándýr stígvél sem verða notuð 2-3 sinnum. Sérstaklega ekki þar sem það er ekkert mál að fá nánast ónotuð stígvél fyrir lítinn eða engann pening. Hún er voða hrifin af að skoða bækur, svo frúin fór í svona notað og nýtt búð í gær og fékk 6 bækur fyrir 200 kall. Það vakti mikla hrifningu.
Bóndinn fór með formanninum í íþróttafélaginu á fund hjá öðru íþróttafélagi hér í nágrenninu, á föstudaginn. Það var góður matur. Svo var einhver kona að kenna þeim hvernig þeir ættu að vinna betur saman. Bóndanum fannst þetta nú hálf kjánalegt. Hann ætlaði nú annars að hætta í félaginu, en á síðasta fundi var formaðurinn alveg að gefast upp, svo bóndanum fannst hann ekki geta hætt. Það hættir líka kona sem hefur farið eitthvað í taugarnar á honum, svo hann situr þarna næstu tvö árin. Það er, ef það verður áfram grundvöllur fyrir að hafa íþróttafélag í bænum. Borgarafélagið í bænum vill ekki heyra á það minnst að sameinast, enginn veit eiginlega af hverju. Það er verið að spara í sveitafélaginu, þannig að umhirða á fótboltavellinum er látin mæta afgangi. Það þýðir að það er ekki hægt að þjálfa fótbolta eða slíkt hérna á svæðinu. En þetta kemur nú allt í ljós.
Það eru komnar nokkrar nýjar myndir af ungfrúnni, þar sem hún varð 19 mánaða í vikunni.
Nágrannakona okkar sem ekki hefur mátt heyra á það minnst að hreyfa við trjánum hjá sér, er allt í einu búin að láta fella mörg risastór eplatré sem héngu yfir í okkar garð. Bóndinn tók allt í einu eftir þessu. Svo það er aldrei að vita nema að hún fáist til að taka eitthvað meira af hekkinu sem er á milli garðanna. Það væri ekki leiðilegt.
Jæja best að fara að hætta þessu
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Sæl og blessuð
Alltaf gaman að heyra frá ykkur. Verðum að hittast í feb. þegar þið komið á klakann. Hér eru bara hlýindi líka og rigning. Vorum á svaka þorrablóti í gær og voða gaman þó ég borði nú ekkert af þessu súra, Bragi sér um það. Flottar myndir af litlu skvísunni(og mömmunni líka) sem er nú ekkert voða lítil lengur. Þessi börn eru alltof fljót að vaxa.
Kveðja frá öllum í Kjóalandinu.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 17:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.