Bolludagur

Kæru bloggvinir

þá er runninn upp bolludagur í Baunalandi. Það voru bakaðar bollur í gær og heppnuðust bara alveg ljómandi. Urðu reyndar dálítið stórar, en mjög fínar annars. Það er búið að gæða sér á nokkum slíkum í gær og í morgun. Auður smakkaði bollur í fyrsta skipti. Hún var nú svo sem ekkert ofur hrifin, en borðaði nú hálfa með rjóma. Hún er ekki vön að fá mikið sætabrauð svo hún er nú ekkert æst í þetta, vill endilega smakka en svo verður nú ekki mikið meira úr því. Hún á víst ábyggilega eftir að bæta sér upp sykurtapið þegar hún verður eldri.

Það hefur verið hrollkalt hér alla vikuna. Ekki verið mikið frost, en það er næstum verra þegar það er smá hiti og svona mikill raki eins og hefur verið. En það er allavega góður hiti á húsinu, svo það er nú allavega til bóta. Þeir eru nú alltaf að lofa hlýrra veðri en það virðist eitthvað ætla láta standa á sér.

Það hefur nú ekki borið mikið til tíðinda hérna hjá okkur í vikunni. Auður Elín fór með dagmömmunni og sló köttinn úr tunnunni á föstudaginn. Þetta er gert á hverju ári í annarri matvörubúðinni inn í Gram. Dagmamman átti að hugsa um 5 börn, en Auður Elín og jafnaldra hennar stungu af og voru farnar að spássera inn í búð áður en við var litið. Þær eru ansi uppátækjasamar. Eða svo segir dagmamman. Henni veitti nú víst ekki af því að komast aðeins í frí. Hún er voða þreytt eitthvað þessa dagana. Það er sjaldan að hún segir eitthvað jákvætt allavega. En sálfræðingurinn er að reyna að beita á hana sálfræði og vera ofurjákvæð og sjá hvort maður fái hana ekki á þá bylgjulengd. Ef ekki verður að reyna að tala við hana um þetta aftur. Hún er aðallega eitthvað pirruð á að við tölum íslensku við Auði. En við erum búin að reyna að útskýra þetta fyrir henni, greinilega án árangurs. Auður Elín virðist skilja allt, bæði hérna heima og hjá dagmömmunni svo spurningin er hvað vandamálið er. Sennilega snýst þetta mest um, að það er lítið af útlendingum hérna, svo margir eru óvanir því að börn alist upp við tvö tungumál.

Frúin er ein heima með Auði. Bóndinn og vinnufélagar hans fóru á fótboltaleik í Esbjerg áðan. Þetta er fyrsti leikurinn á þessu leiktímabili, svo þeir ákváðu að skella sér. Annars fara þeir bara á leiki sem eru spilaðir hér á heimaslóðum. Síðan á að slá köttinn úr tunnunni hér í Tiset á eftir. Frúin er enn að velta fyrir sér, hvort hún eigi að mæta. Hún á það auðvitað á hættu að enginn yrði á hana. Það er allavega frekar kjánalegt að mæta ef maður þekkir engan. Við sjáum til. Það eru enn 45 mínútur til stefnu. Ætli það verði ekki ofan á að maður kíki á þetta, svona Auðar vegna.

Það er annars skapast hálfgert neyðarástand hér á heimilinu vegna þess að frúin hefur ekki komist í klippingu síðan í nóvember. Hún var of sein að panta tíma fyrir jól. Svo pantaði hún tíma í febrúar, en honum var aflýst því pabbi hárgreiðslukonunnar dó. Nú, svo var hún búin að fá tíma á föstudaginn og þá fattaði hún það að hún er að fara á námskeið og kemur seint heim, svo ekki gengur það. Auður Elín fór í klippingu fyrir jól, en er orðin alveg kafloðin aftur, svo hún þarf virkilega á því að halda að fá snyrtingu. Þetta lítur alls ekki vel út. Það er ekki gott að vita hvernig þetta endar! Sennilega endar þetta með því að frúin fer yfirum. Það eru auðvitað fleiri en ein hárgreiðslukona í Gram, en ég nenni ekki að prófa einhverja aðra, nema brýna nauðsyn beri til.

Það voru teknar nokkrar myndir af Auði í gær, reyni að fá bóndann til að henda þeim inn hér í vikunni. Hef ekki þolinmæði til að gera það sjálf.

Jæja læt þetta nægja í bili

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég verð greinilega að koma í heimsókn og eiga orð við þessa dagmömmu ykkar :D Nú já, og ef ekki dugar að tala við hana þá er spurning hvort ég bara dangli ekki aðeins í hana!!!!!!!! Nei, segi nú bara svonna. En standið fast á ykkar því auðvitað lærir barnið íslensku á sínu heimili og dönskuna annarsstaðar, ekki nokkur spurning :D Engin smá forréttindi fyrir Auði Elínu að fá að vera tvítyngd.

Kata (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 03:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband