Niðurrif og moldvörpuslagur

Kæru bloggvinir

jæja þá held ég nú barasta að vorið sé að koma. Það hefur verið mjög gott veður í gær og í dag og á víst að vera eitthvað áfram. Við vorum búin að segja frá því að það væri moldvarpa í garðinum. Nema hvað að hún gerði 4 holur og svo ekkert meir, svo við héldum að hún væri bara farin. En nei, svo komu allt í einu 4 holur í viðbót. Svo í morgun var farið í að setja upp gildru fyrir kvikindið. Það er nú meira en að segja það. Þetta er svona járnapparat sem á að klemma hana, en það þarf að finna göngin sem hún er búin að grafa, maka mold á gildruna og setja svo fötu yfir, svo hún fatti ekki neitt. Svo er bara að bíða og vona. Bóndinn var búin að grafa hálfa leið til Kína áður en við fundum göngin.

Í gær voru svo borin inn 2 tonn af trépillum. Bóndinn var búin að bera inn 1 tonn sjálfur. Maður kemst að því við svona burð að maður er ekki í neinu formi. Eftir þetta var greinilega kominn mikill vorhugur í bóndann því hann ákvað að rífa niður helminginn af bílskýlinu. Það þurfti að gera það svo það sé hægt að komast á bak við hús með traktor. Það á nefnilega að rífa upp ræturnar af trjánum þarna á bak við og plægja, svo það sé hægt að gera kartöflugarð. Frúin var búin að ímynda sér að niðurrifið yrði eitthvað rosa mikið mál. En nei, bóndinn barði í burðarstólpana og svo hrundi allt draslið niður. Það voru tvö lög af þakplötum. Undirlagið hefur greinilega verið orðið lélegt, svo þá hefur bara verið skellt öðru lagi af plötum ofan á það. Auði fannst þetta mjög fyndið, sérstaklega af því það voru svo mikil læti í þakplötunum. Frúin var einmitt að gera grín að því að það verður ekki gott þegar það verður búið að rífa allt sem rífa þarf hér á bæ. Hvar á bóndinn þá að fá útrás fyrir reiðina? Nú þarf svo bara að plata gamla nágranna okkar til að koma og hjálpa til við að rífa upp ræturnar. Og svo þurfa þær auðvitað að fara á haugana. Við erum örugglega búin að fara yfir 100 ferðir á haugana síðan við fluttum hingað. Draslið er endalaust.

Auður var voða kvefuð í byrjun vikunnar. Það rann endalaust úr nefinu á henni og hún hóstaði aðeins. Hún er orðin mikið betri núna. Hóstar samt aðeins ennþá. Við drifum okkur í sund í gær en gátum ekki verið lengi. Það var biluð einhver dæla í lauginni, svo hún var ekki eins heit og venjulega. En sem betur fer voru sturturnar allavega heitar. Hennar uppáhaldsiðja þessa dagana er að reyna að klæða sig sjálf í útifötin. Það gengur nú ekki alveg upp, en fínt að hún reynir. Hún er nú eitthvað að róast og verður ekki alveg brjáluð þegar henni er bannað eitthvað. Hún fór í klippingu á föstudaginn, með pabba sínum. Það þykir mjög undarlegt að ég hleypi pabbanum með barnið í klippingu. Konurnar hér treysta yfirleitt ekki mönnunum sínum fyrir svoleiðis verkefnum. En þetta gekk nú vel hjá honum og barnið er komið óskaddað út úr þessu. Allt annað að sjá barnið. Frúin fer svo í klippingu á þriðjudaginn. Hlakka ekkert smá til.

Það er loksins búið að setja inn nýjar myndir, bæði af barninu og niðurrifinu.

Jæja látum þetta duga í bili

kveðja

Ragga, Gummi og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband