20.3.2011 | 14:01
Dauði moldvörpunnar
Kæru bloggvinir
þá er nú sennilega komið vor í Danmörku. Það hefur verið hið besta veður um helgina. Það er enn pínu kalt, en mjög gott veður. Við erum búin að vera úti í gær og í dag. Það er nóg að gera í að hreinsa til eftir veturinn. Moldvarpan sem gerði okkur lífið leitt, lét lífið í gildrunni í vikunni. Hún gerði nú fyrst smá grín að okkur því hún gróf holu á bak við gildruna, en varð svo að láta í minni pokann. Vonandi að það hafi bara verið ein. Þeim finnst víst voða gott að koma í svona nýja garða af því það er svo auðvelt að grafa sig í gegnum jarðveginn. Gamla konan hér við hliðina er þvílíkt að taka til í sínum garði. Það er allt annað að sjá hann núna. Hún er líka búin að planta trjám í gatið sem er hérna á milli okkar. Hérna megin er búið að hreinsa lauf og grafa klóakbrunninn niður, ásamt ýmsu öðru.
Frúin fékk æðiskast í morgun og henti spýtum og drasli út úr herberginu hérna uppi. Þetta var búið að þreyta hana lengi. Það var ekki hægt að fara inn í herbergið án þess að vera í stórhættu með að stíga á naglaspýtu eða eitthvað álíka. En nú er hægt að ganga um þarna uppi án þess að eiga slíkt á hættu. Vantar bara að laga gatið í gólfinu.
Bóndinn er búin að tala við nágrannann og biðja hann að hjálpa okkur að rífa upp trjáræturnar hér á bak við. Spurning hvenær hann hefur tíma í það. Hann reyndi að selja bóndanun reiðhjól. Hafði verið á uppboði að kaupa hjól handa elsta syninum og endaði með að kaupa eitthvað partý með 12 hjólum. Hann vildi endilega selja bóndanum eitt. Það gæti verið að frúin kíki á það. Hennar hjól er orðið ansi lasburða, enda orðið yfir 20 ára. Það er nú samt mest bóndanum sem finnst það orðið eitthvað hallærislegt, frúin er nokkið sátt við það og kann vel við það. Við sjáum hvað setur.
Auður er ansi ákveðin þessa dagana, það er ekki margt sem við fáum að hjálpa henni við. Hún þarf helst að gera allt sjálf og þegar það hentar henni. Hún getur orðið alveg brjáluð ef hlutirnir ganga ekki upp eins og hún vill. Það er voða barátta að fá hana til að borða, hún þykist ráða því líka. Maður verður að hugga sig við að þetta sé bara tímabil. sem gengur yfir.
Á föstudaginn var svo farið í leiðangur og keypt sólhúsgögn. Það stendur til að gera smá verönd hér fyrir framan í sumar og þá vantaði húsgögn. Við höfum aldrei átt svona fínar mublur. Borðið sem við áttum eyðilagðist síðasta sumar. Enda ekki neitt merkilegt borð. Það verður ekki dónalegt að sitja út í sólinni í sumar í nýja settinu.
Jæja best að láta þetta duga að sinni
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Sæl
Alltaf gaman að lesa bloggið ykkar, geri það á hverjum sunnudegi þó maður kvitti ekki alltaf. Gott að heyra að þið losnuðu við vörpuna áður en hún færi alveg með lóðina hjá ykkur. Sjálfstæðisbaráttan á fullu hjá prinsessunni heyrist maður en það er rétt þetta gengur yfirleitt yfir. Héðan er bara það að frétta að það er allt í snjó og þæfingi ekkert vor alveg komið hjá okkur. Kærar kveðjur frá öllum í Kjóalandi.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 20.3.2011 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.