27.3.2011 | 12:25
Moldvarpan gengin aftur
Kæru bloggvinir
hér er vorið alltaf að reyna að brjótast fram. Það er oft sól, en það er nú ennþá ansi kalt, svona ef maður stendur ekki í sólinni. Góða veðrið var notað í gær til að hreinsa laufblöð úr innkeyrslunni. Það gleymdist greinilega í haust og þess vegna var heil kerrufylli af laufum núna. Svo núna vantar bara möl í innkeyrsluna og þá verður þetta mjög fínt. En það borgar sig nú ekki að gera það fyrr en við erum búin að taka ræturnar úr garðinum hér á bak við.
Bóndinn sá sér til mikillar hrellingar að það voru komnar nýjar moldvorpuhrúgur í garðinn í gær. Það var strax farið með gildru og nú vonum við að við verðum jafn heppin og síðast. Þetta á örugglega eftir að vera vandamál í allt sumar.
Á föstudaginn var rennt í Bilka. Það var tilboð á hægindastólum og frúin fékk smá aur endurgreitt frá skattinum, svo það var ákveðið að nota hann í þetta. Gömlu stólarnir voru alveg orðnir ónýtir, svo nú vonum við að þessir endist betur. Það er nú frekar mikið vesen að komast í Bilka. Af því það er ekki hérna nálægt. Við þurfum að keyra í minnst 45 mínútur að komast í slíka búð. Svo það er ekki gert nema það séu einhver rosa tilboð. Við ákváðum að fara í Bilka í Sönderborg frekar en í Kolding. Af því að það er mun rólegra og skemmtilegra að fara til Sönderborg. Það er skrýtið með þá borg. Við höfum aldrei búið þar, en Gummi var að vinna þar. Samt finnst manni alltaf svo vinalegt að koma þangað. Það sama á við um Árósa. Þó manni myndi aldrei langa að flytja þangað aftur, þá er það eitthvað við borgina sem gerir, að manni finnst maður vera kominn heim.
Danir voru að breyta klukkunni í nótt og það fór alveg fram hjá okkur. Bóndinn fór að kaupa rúnstykki í morgun og sá þá að klukkan í símanum passaði ekki við klukkurnar hérna heima. Síminn skiptir sjálfkrafa á sumartíma. Svo við komum bara alveg af fjöllum. Það var eitthvað verið að tala um þetta í gærkvöldi, en frúin gleymdi að breyta klukkunni í gær. Þetta þýðir að við erum núna 2 tímum á undan ykkur á Fróni. Þetta er svo sem ágætt af því að það er bjartara lengur á kvöldin, en börnin ruglast alveg í ríminu. Það verður spennandi að sjá hvort ungfrúin getur sofnað í kvöld.
Í morgun var svo ráðist í stórframkvæmdir hér inni. Við fengum gefins fataskáp frá vinnufélaga Gumma. Við héldum nú fyrst að hann kæmist ekki fyrir inn í svefnherberginu okkar, svo planið var að setja hann inn í herbergi hjá Auði. En svo kom í ljós að hann passaði alveg í okkar herbergi. Svo nú er loksins búið að koma öllum fötum og ýmsu öðru inn í skáp. Frúin er hæstánægð með þetta. Eina vandamálið er að skápurinn er frekar ljótur, með dökkum hurðum. En við erum að pæla í að taka þær af aftur og mála þær í ljósari lit. Þá er þetta mjög fínn og vandaður skápur.
Auður Elín hefur tekið upp á því síðustu vikurnar að vakna um miðja nótt. Fyrstu næturnar fékk hún að koma upp í til okkar. En svo var það orðið frekar erfitt af því hún er öll á fleygiferð og sparkar í pabba sinn. Svo fann pabbi hennar upp á því að gefa henni að drekka þegar hún vaknar og þá sofnar hún yfirleitt strax aftur. Hún mætti nú alveg hætta þessu alveg, en það gerist sennilega ekki. Hún á að fara til læknis aftur á mánudaginn af því hún er alltaf með vökva í eyrunum. Hún er nú eitthvað að róast í skapinu, verður ekki alltaf alveg brjáluð þegar henni er bannað eitthvað. Nú er hún bara rosa sjálfstæð og vill alls ekki að maður hjálpi, sem getur verið smá vesen, af því hún getur ekki allt sjálf. Henni hefur alltaf fundist voða gaman að róta í hárinu á sér, sérstaklega þegar hún er þreytt. Núna finnst henni svo líka mjög gaman að róta í annarra hári.
Við keyptum svona grjónastól inn í herbergið hennar. Svo nú er pínu auðveldara að sitja inni hjá henni og syngja með henni. Við keyptum söngvabók heima, sem er með geisladisk, og svo getur maður sungið með. Ansi sniðugt. Hún er orðin aðeins betri að dunda við eitthvað og leika sér með dót. Það er voða munur. Hún þroskast voða mikið þessa dagana. Henni gengur þó eitthvað illa að tala skiljanlega. En það hlýtur að koma.
Jæja best að fara að halla sér áður en ungfrúin vaknar af fegrunarblundinum.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.