1.5.2011 | 10:24
Sól og rok
Kæru bloggvinir
hér skín ennþá sól í heiði. Það hefur þó verið ansi mikið rok, sérstaklega núna um helgina. En ef miðað er við veðrið í Reykjavík núna, þá erum við bara sátt. Bara vonandi að við fáum gott sumar. Okkur finnst við alveg eiga það skilið eftir síðustu tvo vetur.
Annars gengur hér allt sinn vanagang. Allt komið í samt horf eftir páskafrí. Auður er búin að vera hjá gestadagmömmu af því hin hefur verið í fríi. Hún er voðalega almennileg. Hún býr svolítið fyrir utan bæinn og er með kindur, hesta og ýmisleg smádýr. Þetta þykir Auði nú ekki leiðilegt. Hún er víst búin að vera ansi mikið úti við síðustu vikuna. Við vorum eitthvað að nefna við dagmömmuna að Auður ætti svo erfitt með að slaka á á kvöldin, svo hún benti okkur á að tala við svæðanuddara. Það getur vel verið að við athugum það. Auður hefur alltaf átt mjög erfitt með að slaka á, svo það væri mjög gott ef það væri hægt að gera eitthvað við því. Við erum líka búin að panta tíma hjá eyrnalækni, en við fengum ekki tíma fyrr en um miðjan júní. Hún er orðin kvefuð aftur og er með smá hitavellu í dag. En við vonum nú að þetta sé ekkert alvarlegt. Hún hefur verið voða svekkt hér í morgun af því hún hefur ekki mátt fara út. Er alltaf að koma með skóna sína og jakkann.
Hún er annars orðin mun duglegri að sitja og láta lesa fyrir sig, eða syngja. Hún er farin að vera mjög dugleg að kubba. Hún er heldur ekki alveg jafn öfugsnúin og hún hefur verið. Það er hægt að banna henni hluti núna, án þess að það verði allt brjálað. Hún er farin að hafa skoðanir á hvaða skó hún á að fara í og hvaða jakka. Okkur finnst þetta nú fullsnemmt, en bara gaman að þessu. Hún bablar og bablar, segir nei og hristir hausinn í tíma og ótíma. Það er ekki alltaf hægt að taka mark á hvað hún segir. Hún segir nei þegar hún meinar já. Hún virðist skilja allt sem er sagt við hana, en stundum þarf að segja hlutina oftar en einu sinni, svo hún gegni. En það er nú víst alveg eðlilegt.
Það er ekkert farið að koma upp úr kartöflugarðinum, enda bara vika síðan þetta var sett niður. Við settum niður jarðarberjaplöntur í gær. Spennandi að sjá hvort maður nær að borða eitthvað af þeim, áður en fuglarnir ná berjunum.
Svo er nú alltaf verið að bíða eftir að fá hjálp til að taka ræturnar hér úr bakgarðinum, sá sem ætlar að hjálpa, kom við hérna áðan og ætlar að koma eftir hádegið, en það getur nú breyst. Það væri voða gott að losna við þetta svo við getum farið að setja möl í innkeyrsluna. Það er ansi mikill sandburður hér inn og út meðan þetta er allt svona bert.
Það er svo loksins búið að skipta um krana í eldhúsvaskinum. Við keyptum einhvern draslkrana þegar við keyptum innréttinguna, af því við höfðum ekki efni á almennilegum. En nú er kominn alvöru krani, enginn smámunur. Bóndinn ætlaði nú að setja hann í sjálfur, en lenti í tómu basli svo það varð að kalla til fagmenn.
Jæja best að fara að leggja sig meðan ungfrúin sefur.
kveðja úr sólinni
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.