Enn skín sólin

 

Kæru bloggvinir

hér skín enn sól í heiði. En um helgina hefur verið svo mikið rok að maður nennir eiginlega ekki að vera úti, er bara orðin hálfkvefaður á þessum blæstri. Við flúðum niður á íþróttasvæði í gær og þar var meira logn af því það er í skjóli frá skóginum. Við erum alveg hætt að skilja í þessu roki. Eftir að frúin skrifaði bloggið síðasta sunnudag kom nágranninn og gróf upp allar ræturnar hérna á bak við. Garðurinn lítur út eins og eftir sprengingu. Við keyrðum svo allar ræturnar á haugana í gær. Þetta eru nú sennilega síðustu ræturnar sem við förum með. Það eru ekki mörg tré eftir sem við ætlum að fjarlægja.

Í morgun fórum við á svona stóran útimarkað hérna rétt hjá. Það er venjulega fullt af dýrum, bæði stórum og smáum. En það var ekkert í dag, svo þetta var nú hálfgerð fýluferð. Bóndinn keypti sér þó öxi og eitthvað arfajárn svo maður þurfi ekki að vera á fjórum fötum að reita illgresi. Það er allt að koma upp í grænmetisgarðinum og maður sér dagamun núna. Það hefur verið upp í 20 stiga hiti á daginn síðustu viku, en svo hefur verið frost á næturnar. Þetta hlýtur allt að rjúka upp þegar við losnum við næturfrostið. Það er voða gaman að fylgjast með þessu koma upp. Við verðum að reyna að muna að taka mynd af fína grænmetisgarðinum, svona til að monta okkur pínu.

Auður hristi af sér hitavelluna á sunnudaginn og var orðin hress á mánudaginn. Hún var voða hissa á að sjá gömlu dagmömmuna sína. Dagmamman hefur verið alveg eiturhress síðan hún kom úr fríi. Hún hefur sennilega bara verið orðið svona þurfandi fyrir afslöppun. Hún hefur nú víst bara haft 2 í pössun mestalla vikuna. Við fórum í síðasta skipti í sund í gær. Svo er ekkert aftur fyrr en í haust. En maður getur auðvitað farið sjálfur. Það er bara dýrt að borga sig í sund svona venjulega. Þegar maður er í ungbarnasundi er þetta ódýrt af því við erum svo mörg.
Auður er farin að segja meira og í gær sagði hún lesa bók, eða eitthvað í þá áttina. Henni finnst það mjög skemmtilegt. Henni finnst líka mjög skemmtilegt að leika í húsinu sínu úti í garði. Við týndum steina og skeljar um daginn og hún gaufast með þetta fram og aftur. Það er spurning að gefa henni sviðakjamma líka og þá er þetta orðið eins og í gamla daga.
Hún fer með pabba sínum á fimmtudögum hér niður á leiksvæði. Íþróttafélagið er farið að bjóða upp á leiki fyrir börn frá 3ja ára. Hún nennir nú ekki að vera með í skipulögðum leikjum, enda skilur hún það nú sennilega ekki enn. En henni finnst rosa gaman að leika sér í leiktækjunum.

Jæja ætli við segjum þetta ekki gott í bili

Kveðja úr rokinu

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband