15.5.2011 | 12:03
Rok og aftur rok
Kæru bloggvinir
hér er rok og skýjað. Það hefur verið ansi mikið rok í vor. Maður er nú að verða pínu þreyttur á þessu. Við vitum ekki alveg hvað veldur þessu en vonum að þetta verði ekki svona í allt sumar. Það hefur nánast ekki rignt hér í mánuð eða meira, svo það er allt orðið mjög þurrt. En það kom smá gusa gær. Það mætti nú alveg koma smá meira.
Það er búið að taka hressilega til í kössunum uppi á lofti. Það er búið að henda helling og svo á eitthvað að fara á flóamarkað hjá borgarahreyfingunni um hvítasunnuhelgina. Alltaf gott að hreinsa aðeins til. Maður rekst alltaf á hluti sem maður skilur ekkert í að maður sé að geyma. Frúin hefur nú tilhneigingu til að geyma ýmislegt miður gáfulegt. En hún stóð sig nokkuð vel í að henda í dag. Enda undir strangri handleiðslu.
Annars hefur nú allt gengið sinn vanagang. Frúin sendi bóndann með hjólin á verkstæði, svo það væri hægt að gera þau klár fyrir sumarið. En hann fékk þau skilaboð frá hjólasmiðnum að það borgaði sig ekki að gera við hjól frúarinnar. Frúin er nú ekki sátt, það er ekki nema rúmlega 20 ára! Svo nú verður maður að fara að kíkja eftir nýju hjóli. Frúin er mjög sérvitur í þessu samhengi, svo þetta verður nú ekkert létt verk. En vonandi að þetta takist fyrir haustið.
Það er búið að opna bakarí í Gram eftir næstum heilt ár. Gamli bakarinn varð að hætta af heilsufarslegum ástæðum. Um síðustu helgi opnaði svo bakari hér úr nágrenninu, útibú í Gram. Frúin fór að sækja sunnudagsrúnstykkin og það var biðröð út á götu og fólk í sínu fínasta pússi að kaupa rúnstykki. Það er mikil hefð fyrir að kaupa rúnstykki um helgar hér, svo fólk hefur verið orðið mjög þurfandi. Þetta er mjög flott bakarí og mun flottara en það sem var fyrir. Það var hálf subbulegt. Svo nú er málið bara að mæta snemma á sunnudagsmorgnum til að þurfa ekki að bíða úti á götu og leggja bílnum langt í burtu.
Auður Elín er að þroskast mjög mikið þessa dagana. Hún er auðvitað ekki hætt að vera uppátækjasöm. Við höldum að dagmömmurnar séu farnar að líkja henni við Emil í Kattholti. Dagmömmurnar rífast um að hafa hana, þegar dagmamman okkar er í fríi. Það er nú ágætt að hún er svona vinsæl. Þær segja að það sé ekkert mál að hafa hana. Hún er mjög dugleg að aðlagast nýjum aðstæðum. Hún er voða dugleg að hjálpa til, bæði við að týna saman dót, sækja mat úr frystikistunni og ýmislegt fleira. Hún verður bara pirruð ef maður leyfir henni ekki hjálpa til.
Í gær fórum við á opið hús hjá gluggafyrirtæki. Við verðum að reyna að skipta út einhverjum gluggum hér í sumar. Það er ekki hægt að hafa þetta einn vetur enn. Það er algjör frumskógur að finna eitthvað út úr þessum gluggaframleiðendum hér. Í bakaleiðinni ætluðum við að borða nesti, en það var svo hvasst að við hrökkluðumst inn í bíl. Við fundum svo flóamarkað á leiðinni heim og keyptum smádót fyrir Auði og nokkrar bækur.
Svo er bóndinn að pæla í að fá mann sem við þekkjum til að koma og fræsa upp lóðina hér á bak við og reyna að slétta hana eitthvað út. Þetta er eins og mýri hér á bak við. Þegar rætunar voru teknar um daginn kom upp alls konar rusl. Það er með ólíkindum hvað er mikið drasl í lóðinni. Þetta hefur greinilega verið notað sem ruslahaugur. Þetta er nú frekar þreytandi. Sérstaklega þegar maður er alltaf að finna glerbrot út um allt. Sem betur fer hefur Auður alveg látið þau eiga sig hingað til.
Jæja best að láta þetta duga í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.