22.5.2011 | 12:08
Allt að gerast heima og heiman
Kæru bloggvinir
það eru nú ekki skemmtilegar fréttirnar sem maður hefur heyrt heiman frá Íslandi í morgun. Hugur okkar er hjá öllum sem eru með skepnur i þessu öskumistri. Þetta var nú sennilega ekki alveg það sem var mest þörf á heima á Íslandi núna.
Hér hefur annars verið ansi viðburðaríkur morgunn. Við hjónaleysin ákváðum að bregða okkur í smá hjólatúr. Frúin er ekki enn búin að fá nýtt hjól, en fór á því gamla. Á bakaleiðinni var svo ákveðið að koma við á íþróttasvæðinu og leyfa Auði að leika sér. Þegar við komum þangað sáum við svo að það var búið að brjótast inn í húsið sem er niður á svæðinu . Það var ekki búið að taka neitt nema kassa af bjór. Enda svo sem engin verðmæti þarna inni. Við hringdum í formanninn í íþróttafélaginu og hann bað okkur að hringja í lögregluna. Við gerðum það og biðum svo eftir þeim. VIð áttum nú ekki von á að lögreglan nennti að keyra út fyrir eitthvað svona smotterí, en þeir mættu á svæðið eftir smátíma. En af því að íþróttasvæðið stendur út í skógi fyrir utan bæinn, þá gekk eitthvað illa að finna þetta, svo frúin hjólaði á móti þeim. Sem betur fer var hún með hjólahjálm! Þetta var bara eins og í amerískri bíómynd.
Á finntudaginn fórum við til svæðanuddara sem var búið að mæla með fyrir Auði. Okkur leist nú ekki alveg á blikuna þegar við komum á staðinn. Þetta var allt voðalega dularfullt. Svæðanuddarinn var ekki minna dularfull. Þetta var eldri kona með frekar dularfullt augnaráð. Hún nuddaði fæturnar á Auði, og Auður sat alveg grafkyrr. Sem gerist mjög sjaldan. Konan sagði margt undarlegt. En sagði að það væri best að við nudduðum á henni fæturna á kvöldin áður en hún færi að sofa. Svo ætluðum við að borga henni, en þá vildi hún ekki taka nema tæpar 1000 kr fyrir. Sagðist bara vilja hjálpa börnum, ekki græða á þeim. Við getum nú ekki sagt að það gangi betur að fá barnið í háttinn á kvöldin. Og hún vill alls ekki láta okkur nudda á sér fæturna. En ætli við prófum ekki að fara til konunnar aftur og sjáum hvort það hjálpar eitthvað.
Á föstudaginn fórum við á stóran dýra- og flóamarkað. Auði fannst rosa spennandi að sjá öll dýrin og fór líka á hestbak í fyrsta skipti. Það var ofsalega gaman. Við keyptum nú bara eitthvað smotterí. Enda ætluðum við nú svo sem ekki að kaupa neitt sérstakt.
Það gengur voðalega hægt að koma rabarbaraplöntunum til, svo við erum að pæla í að kaupa kannski bara tilbúnar plöntur líka. En við sjáum til. En kartöflugrösin rjúka upp og rófurnar og gulræturnar eru líka allar að koma til. Það er búið að rigna hressilega í dag, svo það gæti ekki verið betra fyrir gróðurinn. Við fórum í gær og ætluðum að ná í smá meiri hestaskít, en fengum fulla kerru. Við erum því búin að gefa nágrannanum smávegis, og svo verðum við að reyna að plægja restina niður í garðinn hjá okkur.
Bóndinn reynir svo að setja inn nýjar myndir á eftir. Auður er á einhverju mótþróastigi og vill alls ekki láta taka af sér myndir. Hún er voða mikið að reyna á þolrifin í okkur foreldrunum núna. En það hlýtur að ganga yfir eins og venjulega.
Kveðja
Gummi, Ragga, og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.