Koppaæfingar

Kæru bloggvinir

hér hefur verið hálf kalt undanfarið. Það er allavega ennþá kveikt á kyndingunni, sem er óvanalegt á þessum tíma. Við höfum yfirleitt slökkt á kyndingunni í apríl. En vorið er eitthvað að láta bíða eftir sér. En þeir lofa nú meiri hita í næstu viku.

Hér er annars allt með frið og spekt. Framundan er stutt vinnuvika. Það er náttúrlega uppstigningardagur á fimmtudag og margir taka sér frí á föstudaginn. Skólar eru lokaðir og dagmömmur og leikskólar hafa líka flestir lokað. Maður hefur nú svo sem ekkert á móti því að fá extra frídag. Verst hvað vikan eftir svona stutta viku verður þá löng. En það er ekkert við því að gera. Bara um að gera að njóta þess að hafa smá frí.

Elli er að koma á morgun og ætlar að vera í nokkrar vikur. Það verður fínt að fá hann. Kannski er hægt að lokka hann til að hjálpa pabba sínum eitthvað utandyra. Það er ekki eins og það sé mikil hætta á að hann verði atvinnulaus.

Í gær fórum við í partý hjá dagmömmunni. Hún hélt upp á 25 ára starfsafmæli sem dagmamma hjá bænum. Við reiknuðum með að þetta yrði haldið innandyra, þar sem það mígrigndi. En nei, eins og venja er hér í Danaveldi, þá var búið að slá upp tjaldi úti í garði og svo sat maður þar í skítakulda og vosbúð og fékk sér að borða. Auði fannst þetta voða skrýtið. Hún hitti tvær af stelpunum sem eru hjá dagmömmunni og fannst þetta mjög merkilegt. Við stoppuðum nú ekki lengi, það var svo hráslagalegt. En hinir gestirnir létu þetta nú ekki mikið á sig fá. Enda voru flestir þeirra komnir vel í glas, um hábjartan dag. Maður er nú kannski voðalega gamaldags, en ég kann nú ekki við þetta sull, svona um miðjan dag og sérstaklega ekki þar sem eru lítil börn.

Frúin fór með Auði til háls-, nef- og eyrnalæknis í vikunni. Hún er með vökva í eyrunum og of stóra nefkirtla. Svo hann ætlar að fjarlægja þá og setja rör í eyrun. Það er svo sem ekkert skrýtið að hún eigi erfitt með að sofna á kvöldin út af þessu. Það verður nú örugglega ekki skemmtilegt að horfa á þegar Auður verður svæfð, en allavega gott þegar þetta verður búið. Vökvi í eyrum getur vist líka seinkað málþroska, svo það er kannski ekkert skrýtið að hún sé eitthvað pínu sein í þessu. Hún er oft að reyna að segja manni eitthvað voða merkilegt, en það er nú misjafnt, hvort maður skilji það. En með bendingum og handapati komumst við nú yfirleitt að því hvað hún er að biðja um.

Í morgun fórum við svo í smá hjólatúr. Við rétt náðum inn áður en fór að rigna aftur. Auði finnst rosa sport að fara út að hjóla með okkur. Eftir hjólatúrinn fórum við upp á loft að taka til og fundum kopp. Við tókum hann með okkur niður. Þegar Auður vaknaði eftir hádegislúrinn sá hún koppinn og settist á hann. Við héldum nú hún væri bara eitthvað að leika sér. En stuttu seinna var hún búin að gera í bleiuna. Það er greinilegt að foreldrarnir eru ekki alveg með á nótunum. Það er nú ekki ólíklegt að þegar hún á að fara að nota hann, að það sé ekkert spennandi.

Bóndinn er að fara á fótboltaleik á eftir. Síðasta leikinn á þessu tímabili. Vonandi að hann hangi þurr á meðan.

Það væri nú skemmtilegt að fá kvittanir ef einhver er ennþá að lesa þetta! :)

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl

Já við skulum kvitta því við bíðum spennt á hverjum sunnudegi eftir pistli vikunnar. Alltaf gaman að sjá hvað þið eruð að gera því ekki hringjum við nú oft. Yfirleitt er nú ekkert mál með að svæfa börnin en þau eru dálítið misjöfn þegar þau vakna. Steinunn var öskureið og vildi losna við þessar nálar en Stefán var nú sallarólegur yfir þessu. Hér er búið að vera ekta haustveður í langan tíma en vonandi fer að rofa eitthvað til, núna það skín allavega sólin en það er smá rok. Bragi er komin í sumarfrí frá skólanum en ég þarf að vinna til 7. júní. Heyrumst vonandi á næstunni.

Kær kveðja úr Garðinum.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 29.5.2011 kl. 12:20

2 identicon

hæ, ég kíki líka alltaf hingað á sunnudögum, fastur liður í tölvurúntinum :) Hér er búið að vera mikið fjör um helgina, stórafmæli hjá Agli 9 ára, ótrúlegt hvað tíminn líður. Ekki svo langt síðan hann var í koppaæfingum! Bið að heilsa, kveðja Hildur

Hildur (IP-tala skráð) 29.5.2011 kl. 21:41

3 identicon

Kvitt kvitt.

segi eins og fleiri, bíð spennt eftir sunnudagspistlinum.  Hjá okkur er nú ekki mikið að gerast, förum flestar helgar uppí bústað, var að setja kartöflurnar niður núna um helgina og einhverjum fræjum.  Ef það er enn kalt hjá ykkur þá er skítakuldi hjá okkur, enn næturfrost af og til þannig að gróðurinn er voðalega seinn af stað alla vega upp við bústaðinn.  Hlakka til þegar það fer loks að hlýna sem verður vonandi fljótlega.

kærar kveðjur úr Hafnarfirðinum

Bryndís (IP-tala skráð) 30.5.2011 kl. 00:41

4 identicon

Hæ elskurnar gaman að sjá myndirnar af Auði og auðvitað ykkur hjónunum líka.María er að skrifa fyrir mig.Hverjum er Auður lík,Ásta segir að hún sé blönduð af hvoru foreldri.Þið eruð svo dugleg að setja inn myndir og blogga.

Amma biður að heilsa og fjölskyldan á Heiðarhvammi 3. Aldrei þessu vant er sólskin í dag :)

Við vorum að koma úr Bónus,algjör Geðveiki allt orðið svo hræðilega dýrt á Íslandi.Getum við ekki öll fengið að búa á loftinu? HaHahahaahahah.... Bless í bili :D

Helga Amma (IP-tala skráð) 1.6.2011 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband