2 ára afmæli

Kæru bloggvinir

Það er nú bara komið haust hérna hjá okkur, í gær rigndi eldi og brennisteini og í dag er rok og frekar kalt. En það hlýtur nú að koma sumar einhvern tíma. Við hjónaleysin drifum okkur nú samt í hjólatúr í morgun. Það lá við að maður þyrfti að hafa húfu og vettlinga.

Það er búið að vera brjálað að gera hér síðustu vikuna. Á miðvikudaginn fór Auður Elín í eyrnaaðgerðina. Hún lá alveg grafkyrr meðan læknirin svæfði hana og eftir korter var þetta búið. Hún var voða leið þegar hún vaknaði og var mjög lítil í sér þann dag og daginn eftir. Hún sofnaði nú vel um kvöldið sem aðgerðin var gerð, en nóttina á eftir svaf hún nánast ekki neitt. En svo um helgina hefur hún sofið alla nóttina og í morgun svaf hún til kl. 8. Það hefur nú bara ekki gerst síðan hún var pínulítil. Svo vonandi hjálpar þessi aðgerð eitthvað með nætursvefninn. Auður hefur líka verið minna pirruð síðan þetta var gert.

Á föstudaginn var svo verið að baka og undirbúa. Í miðju kafi komu svo tvenn íslensk hjón í heimsókn. Við þekktum nú bara önnur hjónin. En þau voru öll á fótboltamóti hérna í Danmörku. Það var voða gaman að hitta þau. Þegar þau voru farin var svo sameiginlegur matur hér í Tiset, af því það hefur verið bæjarhátíð. Við röltum nú heim um 9 leytið. Alveg búin að fá nóg. Ungfrúin var nú víst líka alveg búin að fá nóg. Henni finnst rosa gaman að vera þar sem er partý. Gengur á milli fólks og lætur það halda á sér. Fólki sem ekki þekkir hana finnst þetta nú pínu skrýtið. Um daginn vorum við niður á íþróttasvæði að hjálpa til og þá gekk hún milli karlanna og vildi láta þá halda á sér. Þeir urðu bara kjánalegir og vissu ekkert hvað þeir áttu að gera.

Í gær byrjaði dagurinn svo með ókeypis rúnstykkjum á íþróttasvæðinu hér í Tiset. Svo bauð restin af morgninum upp á bakstur og tiltekt. Auður var rosa ánægð með alla athyglina og alla pakkana. Hún var nú samt orðin hálfringluð á þessu öllu saman. Þegar gestirnir voru farnir var svo haldið niður á íþróttasvæði aftur og grillað og borðað meira. Það var nú hálf lágt risið á mannskapnum, enda voru flestir þar búnir að vera vakandi mest alla nóttina.  

Við gáfum Auði matar- og kaffistel í afmælisgjöf og henni finnst ekkert smá mikið stuð að leika með það. Gefur manni kaffi og spælegg eins og hún fái borgað fyrir það.

Það er búið að setja inn nýjar myndir úr afmælinu og líka af uppskerunni úr grænmetisgarðinum. Albúmin heita Auður Elín 24 mánaða, afmælisveisla AEG og svo eru nokkrar nýjar myndir í albúminu kartöflugarðurinn.

Jæja best að fara að slappa af, eftir allan hamaganginn.

Kveðja

Gummi, Ragga og co


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilegar hamingjuóskir með stelpuskottið. Gaman að sjá hvað hún stækkar og þroskast. Flottar myndirnar og greinilegt að hún er hrifinn af bróður sínum. Svo fréttum við af tilvonandi afabarni, það heldur bara alltaf áfram að fjölga í fjölskyldunni.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband