Moldvarpan snýr aftur

Kæru bloggvinir

hér er enn ansi kalt miðað við árstíma. Frúin er komin í sokka aftur og það gerist nú ekki nema brýna nauðsyn beri til. Bóndinn var nú ekki mjög hrifin þegar hann kom fram í morgun. Það var komin ný moldvörpuhola í garðinn. Þeir feðgar fóru út í morgun að reyna að setja gildru upp fyrir kvikindið.

Þeir feðgar eru búnir að vera á fullu að vinna í anddyrinu síðustu vikuna. Þetta er allt að skríða saman hjá þeim. Þeir eru búnir að legga flísar á gólfið, sparsla veggina og laga kringum útidyrahurðina. Næsta verkefni er að setja veggfóður á veggina og mála. Svo fer þetta nú allt að verða búið. En það eru nú víst einhver fleiri verkefni eftir. Það er um að gera að nýta Ella meðan hann er hérna. Svo eru Helga og Unnar að koma í nótt. Það varð að leigja bíl til að ná í þau, svo frúin komist í vinnuna í fyrramálið. En þetta reddast nú sennilega allt. Það verður því fullt hús hér næstu vikuna. Bóndinn og Auður Elín eru komin í sumarfrí en frúin þarf að vinna næstu viku.

Dagurinn var tekinn snemma og skellt í eina köku, það dugar ekkert minna þegar frúin á afmæli. Það er einhver tilraunastarfsemi í gangi. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Annars er nú ekki búið að plana neina stórhátíð í dag. Bara taka því rólega og slappa af. Kannski kíkjum við á útimarkað á eftir þegar Auður vaknar og svo ætlum við hjónaleysin að skella okkur tvö út að borða í kvöld, og Elli ætlar að passa systur sína.

Auður Elín er eitthvað voða pirruð þessa dagana, hún er annaðhvort að fá einhverja endajaxla, því hún slefar svo mikið, eða hún er með hálsbólgu. Hún bendir á hálsinn á sér og segir óó. Hún er voða mikið að reyna að tala þessa dagana. Er með æði fyrir dýrum og æsist öll upp þegar hún sér dýr á beit. Henni finnst líka voða sniðugt að herma eftir okkur fullorðna fólkinu. Dagmamman bauð upp á kaffi og snúða á föstudaginn, af því það var ein stelpa að hætta hjá henni. Það er spurning hvort hún fái annað barn í staðinn. Þeim veitti allavega ekki af að fá strák, því það eru bara stelpur hjá henni. Það er örugglega oft ansi mikil valdabarátta milli þeirra.

Bóndinn ætlar að henda inn nokkrum myndum á eftir, af framkvæmdunum og einhverju fleiru.

 kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og Elli

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband