IKEA ferð

Kæru bloggvinir

Þá er runninn upp enn einn rigningardagurinn hér í Danaveldi. Það hefur rignt mest alla vikuna, en oft hangið þurrt part úr degi. Þetta er nú orðið verulega þreytandi, en það er víst ekkert betra veður í kortunum. Þetta stefnir því allt í að verða sumar eins og síðasta sumar. En samkvæmt fréttunum að heiman er góða veðrið allt þar.

Við skelltum okkur í IKEA í byrjun vikunnar. Þetta var nú ein skásta ferð okkar þangað. Ekki mikið að gera og það tók ekki langan tíma að finna það sem okkur vantaði. Auður Elín hagaði sér mjög vel. Síðan hefur vikan farið í ýmsar smáútréttingar og stúss. Við keyptum geisladiskaskápa í IKEA og þeir voru settir upp í dag. Þetta kemur voða vel út. Þetta er nú bara í fyrsta skipti síðan við byrjuðum að búa saman, að við erum að verða búin að koma öllu fyrir. Það er nú samt smotterí eftir. Maður veit ekki hvað maður á að gera við allt þetta skápapláss.

Við erum að velta fyrir okkur að að taka upp kartöflurnar fljótlega. Grösin á dönsku kartöflunum eru fallin. Við vitum nú ekki alveg hvers vegna, en það hefur verið mjög kalt á nóttinni, svo kannski hafa þær ekki þolað það. En það eru mjög fínar kartöflur undir þeim. Við erum líka búin að smakka gulræturnar, þær eru nú frekar litlar ennþá, en fínar á bragðið. Það er líka búið að smakka rófurnar og þær eru mjög bragðgóðar. Svo það stefnir allt í það, að við reynum að hafa grænmetisræktun á næsta ári líka.

Á föstudaginn fórum við á stóran útimarkað. Það var svo mikið af alls konar dóti, að maður náði nú ekki að skoða nema helminginn af því. Við höfum ekki prófað að fara á þennan markað áður, enda er hann bara á föstudögum og þá erum við auðvitað að vinna. Það hefur farið lítið fyrir afslöppun ennþá, en það er ennþá vika eftir af fríinu, svo kannski náum við því á lokasprettinum.

Það hékk þurrt einn dag í vikunni, svo við drifum okkur í að mála sökkulinn á húsinu. Það er enginn smá munur að sjá þetta núna. Það er bara verst að núna líta tröppurnar enn verr út, þegar sökkullinn er svona fínn. Við erum líka búin að þrífa flaggstöngina og frúin lét eftir bóndanum að kaupa einhverja danska veifu til að flagga með. Frúin er svo mikill Íslendingur í sér að þetta var dálítið erfitt, en þetta lítur nú bara vel út. Það má ekki flagga með íslenska fánanum svo það er alveg eins gott að nota fánastöngina eitthvað.

Krakkarnir hafa verið duglegir að vera úti, þrátt fyrir leiðilega veðráttu. Auður Elín verður ferlega pirruð ef hún fer ekki út á hverjum degi. Henni hefur farið mjög mikið fram með að tala í fríinu. Segir orðið fleiri orð og mun skýrar en áður. Hún apar allt eftir manni. Það verður spennandi að sjá hvernig hún verður hjá dagmömmunni, hvort hún reynir að tala íslensku þar, eða dönsku. Hún verður örugglega ferlega svekkt þegar Helga og Unnar fara heim á miðvikudaginn. Hún sér ekki sólina fyrir Unnari og kallar á hann á morgnana ef hann er ekki vaknaður. Hún er orðin mun betri að kúra og vill knúsa mann og kyssa reglulega. Hún sefur líka orðið betur á nóttinni. Svona yfirleitt allavega.

Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili.

Kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband