7.8.2011 | 11:31
Haustverkin
Kæru bloggvinir
þá er aftur kominn sunnudagur, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Það hefur nú bara gengið ágætlega að komast aftur í vinnugírinn, en maður er nú alltaf smá tíma að komast í gang. Bóndinn er að keyra morguntúr og er svo heima um miðjan daginn og keyrir aftur seinnipartinn. Við vorum búin að redda pössun fyrir Auði en sú stelpa fékk svo vinnu í bakaríinu í Gram, svo frúin hefur þurft að keyra heim fyrr en venjulega. En allt hefur þetta nú blessast. Það var smá stress á fimmtudaginn, því miðbærinn í bænum sem frúin er að vinna í, var lokaður, vegna hjólakeppni. Það þurfti því að leggja langt fyrir utan miðbæinn og reyna að brjótast út fyrir bæinn. Frúin slapp sem betur fer í gegn, áður en þetta varð eitthvað alvarlegt. En manni finnst þetta nú dálítið ýkt. Svo var fólk búið að koma sér fyrir í vegkantinum með nesti og útilegustóla, til að fylgjast með. Manni finnst þetta nú bara fyndið.
Það komu tveir mjög góðir sólardagar í síðustu viku, og svo hefur gamla rysjótta tíðin snúið aftur. Það verður víst ekki meira sumar hér.
Það er stefnan að taka upp restina af kartöflunum, rófurnar og gulræturnar í vikunni. Gulræturnar og rófurnar hafa eitthvað mislukkast. Þær hafa ekki stækkað almennilega. Við þurfum eitthvað að reyna að bæta jarðveginn þarna fyrir næsta sumar. Auði finnst æðislegt að geta bara gengið út í grænmetisgarð og fengið sér gulrætur. Henni er alveg sama þó þær séu drullugar. Maður reynir nú að þrífa versta skítinn af. Hún getur alveg hakkað þetta í sig, og er alveg sama þó þær séu ekki svo stórar.
Í gær var ráðist í að finna til fjölskyldumyndir til að hengja upp á vegg. Við fórum í lítinn bæ hérna hjá og létum grafa í svona platta, fæðingarþyngd og lengd fyrir Helgu Rut. Það fannst gamall svoleiðis heima hjá Ella, en okkur vantaði fyrir Helgu, svo því var reddað, svo nú eigum við svoleiðis fyrir þau öll. Nú þarf bara að púsla þessu upp á vegg. Það er nú mál til komið eftir næstum 3 ár hérna, að fara að hengja upp einhverjar fjölskyldumyndir. Bærinn sem við fórum í, var stútfullur af fólki, af því það var einhver bæjarhátíð. Maður gat varla þverfótað fyrir fólki. Venjulega er ekki mikið að gera í búðum.
Í morgun drifum við okkur svo í hjólatúr. Við rugluðumst eitthvað og fórum miklu lengri hring en við erum vön, en við komumst nú heim, heil á höldnu. Manni verður sennilega illt í afturendanum á morgun. Á leiðinni heim hittum við bónda sem við þekkjum. Hann var að tína plómur af tré og bauð okkur að tína líka. Það getur vel verið að við kíkjum á það.
Rabarbarinn tók allt í einu þvílíkt við sér í rigningunni og það þarf að færa hann á næsta ári. Jarðarberin eru líka að breiða úr sér, svo það þarf að reyna að stoppa það.
Það er stefnan að kaupa möl í innkeyrsluna í vikunni. Það fer eiginlega mest eftir því, hvenær við getum fengið gamla nágrannann okkar til að hjálpa okkur að sækja hana.
Auður hefur verið mjög þreytt þessa vikuna, enda líka erfitt fyrir hana að komast í gang aftur. Dagmamman er voða jákvæð núna, sennilega af því hún hefur verið í fríi. Það er nýbyrjaður strákur hjá henni, svo nú eru ekki bara stelpur, það er nú sennilega mjög hollt. Auður er alltaf að reyna að apa eftir manni orðin, og gerir það víst líka hjá dagmömmunni, hún hefur allavega haft orð á því að hún sé farin að tala meira. Þetta kemur allt saman.
Það var fjárfest í kolagrilli hérna í síðustu viku. Það er afmælisgjöfin okkar í ár. Þetta er rosa fínn gripur og bóndinn alveg gríðarlega ánægður með hann. Það á að grilla í kvöld, þó svo veðrið sé eitthvað breytilegt.
Fótboltatímabilið var svo að byrja aftur í gær og bóndinn fór á fótboltaleik. Það var víst rosa fjör. Það eru tveir Íslendingar að spila í liðinu sem hann heldur með og það skemmir nú víst ekki fyrir að hafa þá með.
Það eru nýjar myndir í albúminu " sumar 2011"
kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Heil og sæl
Alltaf jafn gaman að fá fréttir af ykkur og myndirnar flottar af Auði Elínu. Svakalega hefur hún stækkað og þroskast og alltaf jafn myndarleg :) Héðan er svo sem lítið að frétta nema hvað við vorum viku á Patreksfirði og keyrðum mikið og skoðuðum okkur um. Svo fer skólinn bráðum að byrja aftur, við förum að vinna 15. ág. og krakkarnir mæta 22. ág. Kær kveðja úr Garðinum !
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 7.8.2011 kl. 12:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.