21.8.2011 | 14:37
Sólin lætur sjá sig
Kæru bloggvinir
Hér hefur verið blíðskaparveður um helgina og sólin meira að segja látið sjá sig. Það liggur við að maður hafi fengið áfall. Það er búið að vera mikil umferð af traktorum hér framhjá, enda bændurnir að reyna að ná einhverju inn af uppskerunni. Þeir hafa nú sumir lent í vandræðum og setið fastir á túnunum, af því það er svo mikil bleyta í jörðinni. Það er vonandi að við fáum nokkra góða síðsumardaga núna á næstunni.
Hér hefur verið hamast alla helgina að leggja verönd. Það er búið að leggja hana núna. Þetta er rosa flott. Núna er bara eftir að setja hellur undir dúkkuhúsið hennar Auðar og undir sandkassann hennar. Svo það sér nú fyrir endann á þessu. VIð vorum boðin í svona eftirfermingarveislu í gærmorgun. Það hefur verið til siðs hér að þeim sem gefa fermingargjafir, en er ekki boðið í sjálfa fermingarveisluna, er boðið í svona eftirfermingarveislu. Það var mjög fínt. Auði finnst svona partý náttúrulega ekkert sérstaklega spennandi. En hegðaði sér nú ágætlega. Það er allt fullt af traktorum fyrir utan húsið sem við vorum í og henni fannst þeir meira spennandi en sjálf veislan.
Við erum búin að ákveða að færa Auði til annarrar dagmömmu. Sú sem er dagmamma hér í Tiset er með laust pláss og það er mikið auðveldara að ná í hana hérna, nokkrum húsum frá, en að þurfa alltaf að keyra inn til Gram. Hún er líka með sveigjanlegri opnunartíma, svo Gummi þarf ekki að vera í stresskasti að ná í hana seinnipartinn. Það verður allavega voða munur í vetur þegar fer að verða eitthvað að veðrinu. Það er svo bara eftir að finna út úr því, hvernig núverandi dagmamman tekur í að Auður hætti hjá henni. En við höfum nú alltaf verið frekar óánægð með hana, svo við eigum ekki eftir að sakna hennar. Þessi nýja hefur verið dagmamma í 3 ár og er bara með 3 börn og hefur ennþá áhuga á börnum. Svo þetta getur allavega ekki orðið verra. Það versta er að Auður leikur voða vel við eina stelpu hjá dagmömmunni sem hún er hjá núna, en sú hættir í vor, svo það breytir kannski ekki svo miklu.
Hún er annars orðin voða spennt fyrir að leika með dúkkur aftur. Hún er voða mömmuleg og druslast með dúkkurnar út um allt, svæfir þær og gefur þeim að borða. Maður fer að velta því fyrir sér hvort þetta sé meðfætt að leika svona með dúkkur. Hún hefur allavega ekki lært þetta af mömmu sinni.
Jæja best að láta þetta nægja í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.