Og enn rignir

Kæru bloggvinir

já það kemur sennilega ekki á óvart, en það rignir enn hér í Danaveldi. Ég held allir séu búnir að gefa upp vonina um að það létti eitthvað til.

Bóndinn og félagi hans settu upp þakrennur á skúrinn í gær, svo nú er ekki lengur hætta á að veröndin fljóti í burtu í allri rigningunni. Það hefur nú varla viðrað til að tylla sér niður á veröndinnni ennþá. En það hlýtur að koma, allavega næsta vor. Við ætluðum svo að reyna að festa niður dúkkuhúsið hennar Auðar og sandkassann, svo þetta sé ekki alltaf á hreyfingu. Svo væri nú gott að geta klínt smá málningu á skúrinn. Það veitti allavega ekki af. Það hefur þurft að sæta lagi til að geta slegið garðinn. En á föstudaginn tókst að gera það í einni umferð. Hann var nú bara nokkuð ánægður með það. Honum til mikillar ánægju eru aftur komnar moldvörpur í garðinn og eru búnar að gera 4 stórar holur.

Í gær skaust frúin í smá kaffisamsæti hjá fyrrverandi vinnufélögum. Það er alltaf hressandi að hitta þær. Verst að við búum frekar langt frá hver annarri, svo við hittumst ekki mjög oft. Í dag átti bóndinn svo að fara með vinnufélögunum á skotsvæðið hérna í Tiset. En hann er hálfslappur og kvefaður, svo við fórum bara og fengum okkur rúnstykki í morgun og svo fór hann áðan að fá sér grillmat. Barnapían gat ekki passað, svo þetta varð að vera svona í þetta skiptið. En það er nú svo sem ekki mikið varið í að vera úti að skjóta leirdúfur í mígandi rigningu. Ungfrúin er orðin kvefuð líka, en hún er ekki eins slæm og pabbinn.

Dagmamman er alveg gríðarlega hress þessa dagana. Hún er örugglega svona fegin að vera að losna við Auði. Annars er það uppáhalds skemmtun dótturinnar þessa dagana að rífa sig úr fötunum og stundum að klæða sig í þau líka. En örugglega ekki þegar hún er beðin um það. Hún brjálast ef hún fær ekki að gera það sem hún vill. Manni finnst nú ekkert skemmtilegt að hún standi á orginu út í búð og svoleiðis. En þetta hlýtur að ganga yfir. Þetta reynir vel á þolinmæðina. Það er nú samt mjög fyndið að hún brjálast líka, ef hún fær ekki að hjálpa til, við að fara út með ruslið til dæmis. Svo þetta er nú ekki bara neikvætt.

Á eftir ætlaði vinnufélagi bóndans og maðurinn hennar að kíkja í kaffi. Maðurinn er búinn að lofa að hjálpa til við að skipta um glugga. Svo við vonum að það geti farið að gerast. Það er nú betra að gera það áður en það fer að verða mikið kaldara í veðri.  En það er nú ekkert hægt að reka á eftir fólki, þegar það er að gera þetta í sjálfboðavinnu. Svo við vonum það besta.

Það hefur ekki enn komist í verk að setja inn myndir, en það verður að reyna að vinna eitthvað í því.

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband