3.10.2011 | 17:47
Gluggaskipti
Kæru bloggvinir
fyrst og fremst viljum við biðja dygga lesendur afsökunar á að færslan ekki kom í gær. Það hefur bara allt verið á haus hér um helgina af því við vorum að setja glugga í. Við vonum að okkur verði fyrirgefið! Ekki nóg með að það hafi allt verið á haus í gluggavinnu um helgina, sumarið kom heldur betur. Það var 25 stiga hiti á laugardag og aðeins kaldara í gær, en alveg frábært veður. Það hefði varla getað verið betra. Nú vantar svo að setja 2 glugga í og ganga frá gluggakistum og svoleiðis. Það er ótrúlegt hvað þetta er mikill munur, bæði í útliti og hitastigi hér inni. Bóndinn varð að lofta út þegar hann kom heim í dag. Það hefur aldrei gerst áður, enda höfum við verið með náttúrulega útloftun, af því gluggarnir voru svo óþéttir.
Það var nú ansi skrautlegt að ná gömlu gluggunum úr. Sumir voru ekkert festir, aðrir voru svo fastir að það var næstum ekki hægt að koma þeim úr. En allt gekk þetta stórslysalaust fyrir sig. Planið er allavega að halda áfram næstu helgi og þá ætti maður nú að komast langt með þetta.
Frúin mætti í kaffi hjá dagmömmunni á föstudaginn. Það var svona kveðjukaffi fyrir Auði. Þetta var nú voða sérstakt og hún var nú ekki mikið að hrósa Auði. En nefndi svona í lokin að við ættum nú endilega að kíkja í kaffi einhvern tíma. Auður fór svo til nýju dagmömmunnar í morgun. Hún var nú frekar óhress og grét. En hún jafnaði sig fljótt og var bara ánægð eftir daginn.
Frúin lenti nú í vandræðum í morgun. Bíllinn vildi ekki fara í gang, svo frúin varð að hringja eftir aðstoð. Hann barði eitthvað í startarann og bíllinn rauk í gang. Hann fór svo beint á verkstæði og frúin í vinnuna. En það náðist ekki að klára að gera við hann í dag, svo frúin lenti í hálfgerðum vandræðum að komast heim. Það er nánast vonlaust að komast heim, ef maður hefur ekki bíl. En sem betur fer var einn vinnufélaginn að fara heim, og nennti að skutla frúnni restina af leiðinni. Í fyrramálið verður frúin svo að keyra með bóndanum inn til Gram og taka rútuna þaðan til Ribe og þaðan svo með öðrum vinnufélaga restina af leiðinni. Vonandi verður bíllinn svo tilbúinn á morgun. Manni er bara farið að kvíða fyrir að sjá reikninginn. Sem betur fer var Auður byrjuð hjá nýju dagmömmunni. Það væri meira vesen að þurfa að koma sér til Gram með hana bíllaus.
Dóttirin hefur sofið ansi órólega undanfarið, og hagar sér eins og áður en hún fékk rör í eyrun, svo frúin fékk tíma hjá eyrnalækninum á fimmtudaginn, til að kíkja á þetta. Vonandi er þetta ekkert alvarlegt.
Annars er nú lítið meira að frétta. Við reynum að standa okkur betur í bloggskrifum næstu helgi.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Sæl og blessuð
Gott að heyra frá ykkur , maður vissi bara ekki hvað var í gangi ekkert blogg í gær.
Kveðja frá Garðinum
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 3.10.2011 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.