9.10.2011 | 19:53
Gluggaskipti partur 2
Kæru bloggvinir
Þá er komið sunnudagskvöld og frúin loks sest að skrifum. Það hefur allt verið á fullu hér í dag í að ganga frá gluggunum í stofunni. Þetta er nú hið mesta púsluspil og tekur heilmikinn tíma að fá þetta til að passa. Það er ennþá eftir að setja tvo glugga í. En þeir stefna á að klára þetta næstu helgi eða vikuna eftir það. Það er frí í skólunum í þarnæstu viku, svo bóndinn er bara að keyra á morgnana og seinnipartinn. Það er vonandi að hafist að klára þetta þá, þá getur maður farið að þrífa almennilega hérna.
Auður Elín er búin að vera hjá nýju dagmömmunni síðust vikuna. Hún er miklu ánægðari þegar hún kemur heim. Hún er voða þreytt, enda eru þau meira úti. Hún er miklu fljótari að sofna á kvöldin. Sennilega af því hún er búin að vera að djöflast úti. Það er rosa munur að þurfa ekki að vera að slást við hana á kvöldin. Við héldum að hún væri komin með í eyrun aftur, en sem betur fer var það nú ekki. Hún var farin að vera svo óróleg á nóttinni. En það hefur verið eitthvað annað. Hún er orðin mikið duglegri að tala. Er farin að setja tvö og fleiri orð saman og apar allt eftir manni. Það er sennilega líka af því nýja dagmamman talar meira við börnin en hin gerði.
Annars er nú allt við það sama hér í sveitinni. Það var mjög kalt í nótt og sennilega var næturfrost. Svo sumarið kemur sennilega ekki aftur. Eða þetta litla sumar sem við höfðum.
Við prófuðum um daginn að kaupa grasker frá nágrönnum okkar og gera úr því súpu. Þetta var þvílíkt gott, svo við fórum og keyptum 2 grasker í viðbót og suðum og maukuðum, svo það er tilbúið í súpu. Svo frystum við þetta bara. Það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Það er ekki hægt að kaupa grasker nema á þessum árstíma, svo það er eins gott að byrgja sig upp núna.
Bóndinn náði að slá blettinn í gær. Það hefur ekki verið hægt vegna bleytu. Það er gríðarleg spretta í grasinu, þó það sé ekki hlýtt. En það hlýtur nú eitthvað að fara að hægja á þessu núna, ef það fer að koma næturfrost.
Við vorum búin að reikna með að bíllinn ætti að fara í skoðun í vor, en svo kom bréf í gær, um að hann ætti að fara í skoðun innan 2 mánaða. Það var ekki alveg það sem vantaði. Það verður ekki alveg ókeypis. Við vorum búin að bíða með að skipta um framrúðu, af því við héldum að það væri ekki skoðun fyrr en í vor. Bílarnir hér eru skoðaðir á tveggja ára fresti hér, svo þeir eru víst voða strangir, sérstaklega á eldri bíla. Við höfum nú bara einu sinni átt bíl hér, sem hefur þurft að fara í skoðun, svo við höfum ekki mikla reynslu af þessu. Vonum bara það besta. Þetta hefði nú alveg mátt bíða fram á vor.
Það er orðið svo hlýtt hérna inni eftir að nýju gluggarnir eru komnir í að við þurfum að fara að venja okkur á að opna glugga til að lofta út. Það hefur aldrei þurft áður, því gluggarnir voru svo óþéttir að það blés í gegn. Vonandi verður líka ódýrara að kynda núna þegar við erum komin með þéttari glugga.
Jæja best að láta þetta nægja að sinni.
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.