Gluggaskipti partur 3

Kæru bloggvinir

Jæja þá eru karlarnir farnir að vinna í að koma síðustu gluggunum í. Þeir eru að setja klósettgluggann í núna, svo það er ansi kuldalegt að fara á klóið. Það er búið að vera mjög fallegt veður um helgina, en ansi kalt. Svo það er vonandi að þeir nái að klára þetta núna í dag eða næstu daga. Bóndinn fór í það í gær að þétta útidyrahurðina hér á bak við og það er þvílíkur munur. Það verður bara að fara að lækka á gólfhitanum núna. Annars verður allt of heitt. Maður finnur vel muninn á að vera búinn að fá almennilega glugga.

Annars hefur nú allt gengið sinn vanagang hér undanfarið. Frúin tók sig til í gær og þreif versta skítinn hérna inni og bakaði bæði bollur og köku. Það hefur ekki verið tími til þess í fleiri vikur. Enda allt annað líf að vera hérna inni núna. Svo var mæðrahópur hér í morgun. Ein af mömmunum á 4 mánaða gamlar tvíburastelpur. Mamma þeirra er mjög gjafmild á þær og við hinar fáum gjarnan að halda á þeim og gefa þeim pela. Það er voða gaman. Auður Elín er voða spennt fyrir þessu, en er nú samt pínu afbrigðisöm. Hún er ekki alveg tilbúin að leyfa einhverjum svona krílum að sitja hjá mömmu sinni. Hún er að þroskast mjög mikið þessa dagana. Hún var að leika sér með dúkkur í gær og fór að leika að þær væru að gráta og svo þurfti að hugga þær. Það kom sjúkraþjálfi að kíkja á hana í vikunni. Frúin vildi láta kíkja á fæturna á henni af því hún dettur svolitið oft. Hún var mjög hrifin af barninu og sagði að hún væri mjög þroskuð miðað við aldur en það væri greinilegt að hún ætti mjög erfitt með að slappa af, og ætlar að kenna okkur að gera einhverjar æfingar með henni, svo hún eigi auðveldara með það. Henni fannst henni líka mjög dugleg að tala og fannst alveg sjálfsagt mál að við töluðum við hana íslensku. Það var auðvitað mjög gott að heyra það.

Ungfrúin er annars ansi kvefuð í augnablikinu. Við fórum ekki í sund í gær og héldum henni innan dyra. Við vonum að hún verði fljót að hrista þetta af sér. Hún verður bara 3 daga hjá dagmömmunni í næstu viku. Það er frí í skólunum og frúin tekur sér frí fimmtudag og föstudag. Það verður ágætt, vonandi að geta slakað aðeins á. Það hefur verið svo brjálað að gera hér síðan í vor. Maður hefur nú bara ekki slakað á í fleiri mánuði.

En annars er búið að versla flugmiða til Íslands um jólin. Það er von á barnabarni, svo það er nú eins gott að mæta á svæðið. Eins gott að barnið komi á réttum tíma. Við erum væntanleg 22 desember og verðum fram yfir áramót. Það verður munur að fljúga heim núna og hafa sér sæti fyrir Auði, svo maður þurfi ekki að vera alveg í kremju. VIð keyptum miða frá Billund. Það var ódýrara en að fljúga frá Kaupmannahöfn. Það var nú samt töluvert dýrara að fljúga núna en það hefur verið. En það er ekkert við því að gera.  Svo ef einhver veit um húsnæði sem er á lausu á Suðurnesjunum milli jóla og nýárs, þá viljum við gjarnan heyra um það. Annars getum við nú eiginlega ekki skipulagt þetta neitt fyrr en barnið er komið.

Jæja best að fara að hjálpa til eða þvælast fyrir

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl

Gaman að heyra að von er á ykkur til landsins um jólin, við hljótum að hittast þá. Hvenær á Helga von á sér ? Fjölskyldan alltaf að stækka :)

Kveðja frá öllum hér.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 16.10.2011 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband