Gluggavinna lokakafli

Kæru bloggvinir

Þá er gluggavinnan kominn inn á lokastig. Bóndinn og aðstoðarmaðurinn hafa verið að ganga frá gluggakistum í dag. Svo er bara eftir að setja lista utan um og ýmislegt smotterí. Það er frábært að þetta er komið svona langt. En þetta er líka búið að vera rosalega mikil vinna.

Það hefur verið mjög fallegt veður um helgina, en líka mjög kalt. En það er allavega kostur að það er búið að vera þurrt. Við skelltum vetrardekkjunum undir bílinn í gær. Það hefur verið mjög nálægt frostmarki síðustu nætur, svo það er ekki langt í að það fari að vera eitthvað meira vetrarlegt hérna hjá okkur. Allavega betra að vera við öllu búinn. Eitt sumardekkið var líka orðið svo slitið að það var ekki þorandi að keyra á því lengur.

Frúin og ungfrúin eru búnar að vera heima síðustu fjóra daga. Það var nú meiningin að slaka eitthvað á, en eitthvað fór það nú úrskeiðis eins og venjulega. VIð erum búin að vera mikið úti. Það er alveg nauðsynlegt. En önnur börn hér í bænum virðast ekki þurfa að viðra sig. Það er sjaldan að maður sér börn úti á haustin og veturna. Auður Elín er orðin alveg sjúk í að horfa á sjónvarpið. Hún hefur alls ekki fengist til að glápa á kassann áður. En núna þarf að stoppa hana af. Hún hefur reyndar ekki þolinmæði í að sitja mjög lengi í einu. Hún er líka orðin alveg brjáluð í að fara í bað. Hún fór alltaf í bað í bala með svona sæti ofan í. Sætið var orðið of lítið, svo við hentum því. Hún fór næstum yfir um út af því. En núna finnst henni þetta ofsa mikið sport að setjast bara ofan í balann. Hlær alveg eins og vitleysingur og skvettir vatni út um allt. Sem betur fer gerðum við stóran sturtuklefa, svo það er nóg pláss til að skvetta.

VIð ákváðum að fara í smá fjölskylduferð í gær. Það hefur nú ekki gerst mjög lengi. VIð fórum í lítinn dýragarð hérna rétt hjá. Auður hefur einu sinni áður farið í svona garð, en þá var hún bara pínulítil. Hún var svo spennt að hún var komin á yfirsnúning. Hún heilsaði bæði fólki og dýrum. Fannst þetta alveg gríðarlega spennandi. Við enduðum svo á að gefa geitum að borða og ekki þótti henni það nú leiðilegt. Hún varð pínu smeyk ef þær voru of ágengar, en það er nú eðlilegt. VIð gleymdum videovélinni. Annars hefði verið gaman að taka upp hvernig hún var þarna inni. Það er alveg pottþétt að það verður að fara með hana aftur í svona garð næsta sumar. Það er ekki opið nema á sumrin og í skólafríum. Það var skólafrí í síðustu viku.

Eftir við fengum nýju gluggana fæst Auður alls ekki til að vera í fötum innandyra. Hún var aðeins byrjuð á því í sumar að rífa sig úr fötunum. En núna er hún alveg skæð. Hún er oftast á bleiu og bol hérna inni. Sem betur fer er enn hægt að troða henni í föt ef hún er að fara út. Og hún hleypur ekki út á bleiunni. Henni gæti nú alveg dottið það í hug.

Jæja það er víst ekki svo mikið annað nýtt að frétta héðan úr sveitinni. Endilega kikið á myndir af framkvæmdunum. Bóndinn skellti þeim inn í síðustu viku.

Já og svo man ég ekki hvort ég var búin að segja að fjölskyldan kemur á klakann um jólin. Við megum ekki missa af nýja barnabarninu sem er væntanlegt rétt fyrir jól. Eins gott að það komi á réttum tíma!

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá engin smámunur að sjá húsið með nýju gluggunum, ekkert smá flott. Vonandi náum við að hittast þegar þið komið um jólin :) Kveðja Hildur

Hildur (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 19:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband