Haustveður

Kæru bloggvinir

þá er víst óhætt að segja að haustið sé komið. Laufblöðin eru farin að fljúga út um allt og það er orðið ansi hryssingslegt veður. Við vonum nú samt að snjórinn láti bíða eftir sér. Það er búið að pakka saman sólhúsgögnunum, það er nú alltaf pínu leiðilegt, þegar maður gerir það.

Annars er nú allt búið að vera með kyrrum kjörum hér. Það er enn verið að leggja síðustu hönd á gluggana, nú vantar bara að klára þá innandyra og setja fúga í að utan. Það þarf víst að fá fagmann í það, svo það verði gert almennilega. Það er alveg ótrúlegur munur á húsinu, bæði að innan og utan.

Í gær var verið að vígja göngustíg hér í nágrenninu. Við skelltum okkur, þó svo að þetta væri stígur sem ekki er gerður fyrir barnakerrur. Auður Elín fékk að sitja í hjá strák sem er hjá sömu dagmömmu. Þau sátu þarna steinþegjandi hlið við hlið, yfir holur og hæðir og skemmtu sér konunglega. Svo voru borðaðar pylsur á eftir. Það finnst nú mörgum undarlegt að eyða svo miklum pening í að gera brú yfir árnar þarna en ekki gera ráð fyrir að fólk með börn geti gengið þarna um með góðu móti. En þetta er mjög falleg leið og manni hefði ekki grunað að það gæti verið svona fallegt hérna rétt hjá. Svo nú er að bíða eftir að sjá hvort það þorni ekki eitthvað til, því karlarnir lentu í vatni og drullu upp að hnjám þarna í gær, þegar þeir voru að reyna að komast með barnakerrurnar yfir.

Í morgun var okkur svo boðið í morgunmat hjá fólki sem bóndinn keyrir fyrir í vinnunni. Þau búa hérna rétt hjá. Þau eru með dádýr, hunda hesta og kýr og Auður Elín var að fara yfirum af spenningi. Þau átti líka lítið fjórhjól og ýmislegt spennandi. Auður Elín fékk kókómjólk í fyrsta skipti og ýmislegt fleira sem hún ekki fær hérna heima hjá sér, svo hún var víst bara mjög sátt. Hún vaknaði annars klukkan 5 í morgun. Við vorum að breyta klukkunni í nótt, svo nú erum við klukkutíma á eftir Íslandi. Auður hefur eitthvað gleymt að reikna með því. Frúin var nú ekki hrifin af að þurfa að fara svo snemma á fætur. En það er ekkert við því að gera. Vonandi bara að svefnmynstrið fari ekki í algjört rugl. Það gerði það í vor þegar við breyttum klukkunni. Þeir eru nú alltaf að tala um að fara að hætta þessu. En það verður aldrei neitt úr því.

Auður er annars er alveg yfir sig ánægð hjá nýju dagmömmunni. Talar ekki um annað þegar hún er hérna heima, en að fara til Helle. Manni fer nú að finnast maður vera hálf útundan. Það er náttúrlega frábært að henni líður svona vel. Hún er voða dugleg að syngja. Man nú ekki nema brot af tekstanum, en kann lögin, svo hún getur raulað restina. Hún er orðin alveg brjáluð í að horfa á sjónvarpið. Hún hefur sérstaklega gaman að myndum með söng í.

Frúin er búin að vera með aðra löppina á bílaverkstæði þessa vikuna. Fyrst var skipt um framrúðu og svo var ætlunin að láta kíkja á bílinn og undirbúa fyrir skoðun. Þegar frúin kom að sækja bílinn, munaði nú litlu að hún fengi taugaáfall. Það var ýmislegt sem var að og hún mátti ekki keyra í bílnum heim, því bremsurörin voru ónýt. Þetta var ansi dýrt spaug, svo frúin fékk lánaðan bíl á verkstæðinu og keyrði heim til að hugsa málið. Það var ákveðið að það borgaði sig að gera við þennan bíl og koma honum í gegnum skoðun. Svo nú á hann að fara á morgun inn á verkstæði og frúin keyrir svo vonandi heim í honum seinnipartinn. Svona verður þetta í nokkra daga. Það er náttúrlega frekar pirrandi að vera svona háður bílnum, en svo sem ekkert við því að gera. Sem betur fer er verkstæðismaðurinn skilningsríkur og reddar hlutunum fyrir mann.

Kær kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband