6.11.2011 | 16:08
Póstkassaævintýri
Kæru bloggvinir
hér er alltaf nóg að gera, það vinnst allavega sjaldan tími til að slappa af. Það hefur verið mjög gott veður um helgina, þó það hafi verið pínu kalt.
Það var ákveðið að ráðast í að færa póstkassann, áður en það kæmi frost í jörð. Það koma nýjar reglur hér um áramótin, svo maður þarf að flytja póstkassann út að gangstétt. Þetta tók nú hellings tíma, því þetta þurfti allt að passa bæði á hæð og lengd frá gangstétt. Það er vonandi að það verði eitthvað ódýrara að senda bréf þegar það er búið að breyta þessu. Það hlýtur allavega að vera fljótlegra að dreifa póstinum núna.
Í morgun fórum við á það sem við héldum að væri jólamarkaður í kastala hér inn í Gram. Þetta var svo alls ekki jólamarkaður, en einhver sölusýning. Það var ótrúlega mikið af fólki þarna. Það var maður í jólasveinabúning. Auði leist nú ekkert á hann. Hápunktur ferðarinnar var svo að frúin og ungfrúin fóru stuttan túr í hestvagni. Auður fór að gráta þegar við þurftum að fara úr honum. Svo kíktum við í hesthúsið og þar voru, auk hesta, líka margir kettir. Henni fannst það mjög áhugavert.
Hún er orðin rosa dugleg að púsla og kubba. Dagmamman er alltaf að æfa hana. Hún er líka orðin betri að segja fleiri orð í setningu. Dagmamman er víst líka að æfa hana í því. Við hittum gömlu dagmömmuna á markaðnum í morgun. Hún var alveg jafn upprifin og venjulega. Auður hafði engan sérstakan áhuga á að tala við hana.
Í dag var svo ráðist í að pæla upp matjurtagarðinn. Það á að færa jarðaberin í vor, því þau breiða úr sér út um allt. Annars á bara að vera með eitthvað svipað og síðasta ár. Kannski fleiri kartöflur. VIð sjáum til. Það er allavega gott að vera búin að stinga upp beðið, þá þarf bara að henda skít í þetta í vor og pæla þetta aftur.
Frúin er búin að vera í voða veseni alla vikuna. Bíllinn er búin að vera á verkstæði og hún hefur þurft að fá lánaða bíla á verkstæðinu. Það hefur svo sem verið fínt, nema á þriðjudaginn. Þá fékk hún lánaðan bíl til að fara á fund. EKki vildi nú betur til en það að hún varð bensínlaus út í bæ og varð að hringja á verkstæðið og fá þá til að koma með bensín. Henni datt nú ekki í hug að maður yrði sendur af stað bensínlaus. En þetta reddaðist nú allt og bíllinn okkar komst í gegnum skoðun á föstudag. Nú vonum við að bíllinn verði til friðs í einhvern tíma. Þetta er nú ekki alveg ókeypis.
Í dag brugðum við okkur í smá göngutúr. Við lentum í miklum svaðilförum. Yfir tún og ruðninga og inn á hlað hjá fólki. Við gengum framhjá húsi sem er nýbúið að gera upp. Eigandinn stóð fyrir utan og vildi endilega sýna okkur húsið. Þetta er pínulítið hús og það er mjög lágt til lofts. En mjög huggulegt. Hann ætlar víst að reyna að selja það.
Jæja ætli þetta verði ekki látið nægja að sinni
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.