Músagangur

Kæru bloggvinir

Þá er upp runninn sunnudagur, það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram. Ekki nema rúmur mánuður fram að jólum. Það hefur verið ansi kalt hér síðustu viku, en núna um helgina, hefur verið mjög fallegt veður, þó það hafi verið pínu kalt. Það hefur verið heilmikil þoka, en það er mjög algengt á þessum árstíma. Þó manni finnist þokan leiðileg, vill maður hana nú frekar en snjókomu og hálku.

Bóndinn fór í músaleiðangur í gær. Hann ætlaði að rífa upp gólfið upp á lofti, en það var nú hægara sagt en gert, svo það var ákveðið að hugsa málið. Hann fann svo aðra leið til að koma eitrinu undir gólfið uppi, svo er vonandi að maður nái að farga þeim með þessu, áður en þær fara að fjölga sér þarna uppi. Þegar við vorum að rífa veggi og gólf í sundur í gær, sáum við að það var meiri einangrun en við reiknuðum með, í þakinu. En það þarf að einangra þetta allt mikið betur og loka öllum götum.

Í gær var okkur boðið í kaffi hjá vinnufélaga Gumma og manninum sem hjálpaði okkur að setja gluggana í. Þau búa úti í sveit. Þau eru með 2 hunda, fullt af köttum og nokkra hesta. Auði fannst þetta nú ekki leiðilegt. Annar hundurinn var þó ansi uppáþrengjandi, og henni þótti hann ekki spennandi til að byrja með, en svo kom þetta nú allt.

Í dag var svo drifið í að taka jólamyndina af ungfrúnni. Það á að skella í nokkur jólakort og kannski eitthvað meira. Hún er nú ekki á besta aldrinum til að láta taka af sér myndir. En það tókst að ná af henni þokkalegum myndum. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út. Eftir að það var búið að festa prinsessuna á filmu fórum við á svona náttúruleiksvæði inn í Gram. Þar eru leiktækin öll úr tré, ekki úr plasti eins og á flestum öðrum stöðum. Henni fannst þetta mjög skemmtilegt.

Auður er búin að vera að prófa að sofa með sérstaka sæng. Hún svaf alla nóttina fyrstu næturnar, en fór svo að vakna rétt eftir miðnætti og sparka sænginni af sér. En hún er líka orðin svolítið kvefuð, svo það hefur kannski angrað hana eitthvað. SJúkraþjálfinn kemur aftur á miðvikudaginn, og þá finnum við kannski út, hvort við eigum að gera eitthvað meira, til að hún slaki betur á. Hún er samt orðin mikið betri en hún var. Það er ekki sömu slagsmál við hana á kvöldin þegar hún á að sofa.

Bóndinn reynir kannski að muna að henda inn myndum í vikunni.

Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og blessuð !

Bíð alltaf spent á sunnudögum að lesa pistil dagsins og heyra af ykkur. Alltaf gaman að fá fréttir frá Danaveldi.

Góðar kveðjur frá Kjóalandinum.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 20.11.2011 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband