Jólasveinninn kemur til Tiset

Kæru bloggvinir

það er nú akkúrat ekkert jólalegt hérna núna, þó það sé fyrsti sunnudagur í aðventu. Það er hífandi rok og það koma hellidembur inn á milli. Við fórum út að labba í morgun og það lá við, við blésum bara í burtu. Auði fannst þetta nú heilmikið fjör, var ekkert að stressa sig á þessu. En jólasveinninn kemur til Tiset í dag, það er spurning, hvort hann treysti sér í þessu veðri. En hann hlýtur allavega að geta komið inn í hlöðuna, þar sem þetta er venjulega haldið. Það verður spennandi að sjá hvernig Auður bregst við að hitta hann. Hún er voða upptekin af jólasveinum þessa dagana og finnst mjög spennandi að skoða myndir af jólasveinum og syngja jólalög. En það er nú ekki þar með sagt að henni líki við hann, svona í nærmynd.

Það er annars búið að vera voða mikið að gera í félagslífinu hér í Tiset þessa helgina. Á föstudaginn var okkur boðið í reisugilli hér í bænum. Kona sem er með Gumma í íþróttafélaginu, náði sér í nýjan mann. En hún á þrjá unglinga, og það var ekki pláss fyrir þau í húsinu hjá nýja manninum, svo þau ákváðu að bæta við húsið. Við erum nú alltaf pínu útundan í svona samkomum. Held við séum búin að komast að því að vandamálið er sennilega að við erum ekki eins miklar kjaftakellingar og hinir hér í bænum. Það vita allir allt um alla, en við fréttum aldrei neitt. En við höfum nú ekki hugsað okkur að gera neitt í því, það er að segja að verða meiri kjaftakerlingar.

Í gærkvöldi var svo jólahlaðborð í vinnunni hjá bóndanum. Það var setið og borðað, nánast stanslaust frá kl. 19:00-22:00. Bóndinn hafði lofað að vera þar til þetta væri búið og keyra fólk heim. En þurfti svo ekki að gera það, sem betur fer. Annars hefði hann komið heim seint í nótt. Við vorum komin heim fyrir miðnætti. Við sátum hjá fólki sem talar nánast ekki, svo þetta var nú ekkert ofurspennandi, en fínn matur. Það er alveg spurning, hvort við nennum að vera með næsta ár. Við gætum alveg hugsað okkur að fara bara tvö út að borða, á einhvern fínan stað. En við sjáum til. Við fengum stelpu til að passa, sem er vön að passa, og Auður hagaði sér víst bara nokkuð vel. Hún svaf allavega til kl. 7:30 í morgun. Hún vaknar venjulega kl. 6:00.

Við prófuðum í fyrsta skipti að kaupa kálfakjöt, beint af bóndanum. Við fengum tæp 40 kg, gróft niðursagað. Gummi stóð svo sveittur við það á fimmtudaginn að deila þessu niður. Við höfum aldrei í okkar tíð hér í Danmörku átt svona fínt kjöt. VIð erum búin að prófa hakkið og það var mjög fínt. Það eru allavega mun meiri gæði í svona kjöti, en því sem maður kaupir út í búð. Þar er oft verið að svindla og selja gamalt kjöt og blanda einhverju rusli í það.

Auður Elín er orðin voða dugleg að dunda sér, við að púsla og teikna. Hún föndrar voða mikið hjá nýju dagmömmunni og hún er örugglega búin að föndra meira hjá henni, síðan í byrjun október, en hún föndraði allan tímann sem hún var hjá hinni dagmömmunni.

kveðja úr sveitinni

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband