Messuferð

Kæru bloggvinir

Hér er unnið að því að komast í jólaskapið, en eitthvað lætur það nú á sér standa. Það er ekkert jólalegt hér. Reyndar mjög kalt, en engin snjór. Það hefur verið mjög hvasst hérna í síðustu viku og verið smá slydda. Annars er bara svona vatnskuldi, sem nístir gegnum merg og bein. Sem betur fer er komin almennilegur hiti á hérna inni, svo manni er ekki kalt. Frúin er þó í smá vandræðum í vinnunni, þar er verið að spara hitann, svo hún er alltaf hálfloppin þar.

Annars hefur verið nóg að gera í félagsmálunum þessa helgina. Það var jólahlaðborð á föstudaginn, með íþróttafélaginu. Það var pantaður matur og svo sátum við bara saman og borðuðum. Það var mjög fínt. VIð gátum ekki fengið pössun fyrir Auði, svo hún var bara með. Henni fannst þetta mjög spennandi, en var nú orðin ansi þreytt. Við fórum heim um 21:00 leytið og hún var ekki lengi að sofna. Það var nú svolítið fyndið að þegar við vorum í búðinni á föstudaginn, þá vorum við bara að spjalla, eins og venjulega, og svo heyrðum við allt í einu einhvern svara okkur á íslensku. Þá var íslenskur maður í búðinni líka. Við höfum aldrei hitt hann, en hann býr í Gram og hefur gert í 7 mánuði. Hann spjallaði voða mikið og bauð okkur að koma í kaffi einhvern tíma. Konan hans er auðvitað af Suðurnesjunum, týpískt að það hittist svoleiðis á.

Í morgun var svo ákveðið að kíkja í fjölskyldumessu inn í Gram. VIð erum nú ekki iðin við kirkjusókn, en það er yfirleitt smá stemning í að fara í kirkju á aðventunni. Þetta var nú alveg ágætt. En alveg ótrúlega formlegt. Þó þetta ætti að vera fjölskyldumessa. Það er reyndar alltaf að koma okkur á óvart, hvað allt er formlegt hérna. Auður skemmti sér alveg rosalega vel og finnst alveg æðislegt að syngja. Hún er orðin alveg æst í að láta syngja fyrir sig á kvöldin þegar hún að fara að sofa, þá vill hún að maður syngji fyrir sig. VIð erum að pæla í að reyna að finna einhvern sunnudagaskóla fyrir hana eftir áramót.

Á eftir er svo stefnt á að kíkja á íslendinginn sem við hittum á föstudaginn og fjölskylduna hans. Það verður örugglega eitthvað skrautlegt, eins og alltaf þegar Íslendingar eru annars vegar.

Frúin er að fara á ráðstefnu í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn. Það þýðir að hún fer með lestinni á þriðjudaginn og kemur aftur heim á miðvikudaginn. Það verður nú ansi undarlegt að vera í burtu frá Auði svona yfir nótt. Bóndinn hefur miklar áhyggjur af því að hann á að sofa einn. Frúin gistir hjá vinnufélaga sínum, sem býr í Kaupmannahöfn. Það er nú sennilega smá munur á að sofa í rólegheitunum í Tiset og í umferðinni í Kaupmannahöfn. En ætli þetta bjargist nú ekki allt saman.

Það hefur ekkert heyrst í músinni á loftinu í nokkra daga, svo við vonum hún sé farin á vit feðra sinna.

Til að reyna að bæta jólastemninguna hérna heima er svo búið að setja upp aðeins meira skraut og fleiri seríur, það hjálpar allt til. Svo er búið að pakka inn öllum jólagjöfunum og kortin bíða eftir að komast í póst. Það verður ekki mikið jólastress hér.

Jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband