Jólaslydda

Kæru bloggvinir

Veðrið sýnir sig frá öllum hliðum þessa dagana. Núna er sól og mígandi rigning. Annars hefur þetta verið svona bland í poka. Það var smá slydda í morgun, en enginn alvöru snjór. Danirnir væla mikið yfir því að hafa ekki fengið snjó. Svo er alveg klárt að ef það kæmi snjór, þá yrði allt vitlaust.

Það hefur annars verið ansi rólegt hérna síðustu daga. Í morgun renndum við í bæ, ca. 70 km héðan, af því bóndinn þurfti að fá tímabundna framlengingu á vegabréfið, svo hann komist nú heim. Sú sem er sendiherra þar er að hætta, svo við þurfum að finna okkur nýjan. Hún virtist nú vera eitthvað þreytt á Íslendingum. Fannst þeir greinilega vera með allt á síðustu stundu. En miðað við húsið sem hún bjó í, þá fær hún nú sennilega vel borgað. Hún bjó í einhverju rosa flottri villu. Á bakaleiðinni var stoppað í búð, svo bóndinn gæti keypt meira jólaskraut. Það er komið á útsölu, svo það er um að gera að kaupa það núna á hálfvirði. Hann er víst orðinn nokkuð sáttur við hvernig þetta lítur út núna.

Í gær komu Íslendingarnir í heimsókn. Það var mjög huggulegt. Það vill svo vel til að maðurinn í fjölskyldunni heldur með sama fótboltaliði og bóndinn, svo loksins hefur hann einhvern að glápa á boltann með.

Annars bíðum við bara spennt eftir að það komi fréttir af fæðingu barnabarnsins heima á Íslandi. Helga Rut er inn á Landspítala núna og þeir ætluðu að fara að setja hana af stað, af því það er búið að vera eitthvað blóðþrýstingsvesen á henni síðustu daga. Hún er auðvitað stressuð yfir þessu, en er nú sennilega farin að hlakka til að komast í gegnum þetta.

Okkur er farið að hlakka voða mikið til að koma heim, við erum að pæla í að fá kunningja okkar til að keyra okkur á flugvöllinn og láta bílinn svo standa hérna heima. En það kemur allt í ljós.

Auður Elín er blaðrandi alla daga. Hún fékk að hitta jólasvein með dagmömmunni í vikunni og var alveg heilluð. Hélt í höndina á honum og brosti allan hringinn. Hún er orðin rosa dugleg að fara á koppinn og biður um það sjálf. Hún gleymir sér nú stundum, en er farin að prófa að vera aðeins bleiulaus.

Okkur til mikillar ánægju er þvottavélin okkar alveg að syngja sitt síðasta. Það eru engin smá læti þegar hún er að vinda. Maður bíður eftir hún springi. Stundum eru engin læti og stundum alveg rosaleg. Það verður víst að fara í það eftir áramót að kíkja á nýja.

Bóndinn henti inn nokkrum myndum í vikunni. Svo þið getið séð nýjustu útgáfuna af barninu, áður en við komum heim.

Jólakveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband