Bolludagur

Kæru bloggfélagar

Þá ættum við að geta hætt að væla yfir frosti og kulda, þar sem það hefur verið heldur hlýrra hér undanfarið. Við kvörtum nú ekki yfir því.
Bóndinn er búinn að vera í vikufríi. Fyrstu tvo dagana var Auður Elín hjá dagmömmunni. Hún vildi endilega fá hana, svo hin tvö börnin hefðu einhvern að leika við. Hún virtist nú bara nokkuð sátt við það. Hún var ekki eins lengi á daginn og hún er vön, svo það hefur nú örugglega hjálpað til. Annars ætlaði bóndinn nú að reyna að skipta út hurðunum á herberginu hjá okkur og hjá Auði. Það er langt síðan við keyptum hurðarnar, en þær pössuðu ekki í götin. Hann fékk því Óla félaga sinn til að reyna að hjálpa. Þeir gátu mixað hurðina inn í Auðar herbergi í, en hurðagatið í okkar herbergi er svo skakkt að það er ekki hægt að setja hurðina í þar. Það verður einhvern tíma að reyna að laga það. En það var nú mikilvægara að koma hurð í herbergið hennar Auðar, svo Helga Rut geti lokað inn til sín þegar hún kemur. Við erum svo heppin að ein kona sem við könnumst við, er að flytja, svo hún er að losa sig við bæði skrifborð og kommóðu. Hún ætlaði bara að henda þessu, svo það var mjög gott við gátum nýtt þetta.

Á föstudaginn var frúin í fríi. Vinkona hennar kom fyrripartinn. Seinnipartinn var svo farið í ræktina og við enduðum í kvöldmat hjá Ástu og Óla. Í gær var brunað til Árósa að heimsækja kunningja okkar. Við skelltum okkur í risastóran markað, svona svipað og Hagkaup, bara 10 sinnum stærra. Það var sem betur fer lítið af fólki, svo þetta var ekki eins slæmt og oft áður. Kosturinn við svona markaði er að þarna fær maður næstum hvað sem manni vantar, frá smurolíu til smjörs. Við gátum keypt fullt af dóti sem okkur vantaði. Síðan var okkur boðið í mat hjá kunningja okkar. Hann gerði í því að láta okkur fá alls konar dót, sem hann telur sig ekki þurfa að nota lengur. Við græddum nýja ferðatösku, bóndinn fékk nýjar buxur og svo fengum við ýmislegt annað smálegt.  Í morgun var svo farið í langan göngutúr og hestunum gefið brauð. Auður er farin að þora að gefa þeim sjálf. Hingað til hefur hún helst bara viljað horfa á. Síðan var farið í líkamsrækt og endað í bollubakstri. Það er bolludagur hér í Danmörku í dag. Auður Elín er búin að fá lánaða 2 grímubúninga. Það er einhver öskudagsskemmtun hjá dagmömmunni á þriðjudaginn. Hún skilur nú ekki mikið af þessu ennþá. En finnst voða spennandi að klæða sig í búning. Hún er orðin hrædd við hina og þessa hluti. Það er erfitt að segja hvað það er sem hún er hrædd við, en allt í einu getur hún komið og sagt að hún sé hrædd. Það er kannski bara einhvað tímabil. Hún hefur nú aldrei verið hrædd við neitt. En kannski verða börn meira hrædd, þegar þau byrja að skilja meira. Hún er oft voða pirruð yfir að maður skilur ekki hvað hún er að segja. Hún blandar saman íslensku og dönsku, svo þetta er nú oft ansi fyndið.

Á morgun tekur svo bara við ný vinnuvika. Frúin þarf að reyna að koma bílnum á verkstæði, það eru að fara í honum bremsurnar og við erum ansi smeyk um að það sé að fara undan honum púströrið líka. Það er alltaf eitthvað, en það er svo sem ekki skrýtið þegar bíllin er keyrður svona mikið. Bensínverðið er að slá öll met hérna núna. Maður er heppin ef maður nær að fylla fyrir minna en 13 kr líterinn, (ca. 273 íslenskar). Þetta er algjört brjálæði.

Jæja ætli við látum þetta ekki nægja í bili.

Kveðja

Ragga, Gummi og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband