Vorblíða

Kæru bloggvinir

hér hefur verið rjómablíða um helgina. Það er búið að setja út sólhúsgögn og taka til í garðinum hér að framan. Það var rosa mikið af laufum og greinum eftir veturinn. Auður Elín hefur verið gríðarlega sátt við þetta og er orðin mjög dugleg við að dunda sér við að drullumalla eitthvað í húsinu sínu og sandkassanum. Hún eirði sér voða lítið við þetta síðasta sumar. En það er planið að girða hér fyrir framan um páskana, ef veður leyfir. Þá getur hún dundað sér þarna úti.

Annars er svo sem voða lítið að frétta. Hér er allt við það sama. Í gær grilluðum við með vinafólki okkar. Það var nú of kalt til að borða úti, en við nutum þess nú samt sem áður. Það er svo stefnt að því að grilla aftur í kvöld. Ekki hægt að sleppa þessu góða veðri. Við nenntum ekki einu sinni í líkamsrækt í dag, af því að veðrið var svo gott. En tókum aðeins á því í garðinum í staðinn. Frúin er nú eiginlega ákveðin í að hætta í ræktinni eftir næsta mánuð. Hún sér ekki fram á að hún nenni þegar það er orðið gott veður. Nú er bara að vona að veðrið um páskana verði svona gott. Þeir eru allavega að spá þessari blíðu eitthvað fram í næstu viku.

Kanínurnar voru settar í búr hér fyrir utan í morgun. Þær eru nú eitthvað stressaðar yfir þessu, en það hlýtur að venjast. VIð erum að reyna að finna ódýr notuð búr sem hægt er að hafa úti. Það er allavega munur að vera laus við þær héðan af ganginum. Nágranni okkar kom svo færandi hendi með hálmbagga sem hann þurfti að losna við, svo við þurfum ekki að kaupa það á næstunni. Við fengum líka gamalt búr frá öðrum nágranna, svo það er hægt að redda ýmsu án stórra vandræða.

Bóndinn er í fríi þessa 3 vinnudaga sem eru í vikunni fyrir páska. Hann átti eitthvað frí eftir, svo það er um að gera að nýta það. Frúin á ekkert frí, svo hún verður að vinna mánudag og þriðjudag og taka svo frí miðvikudag. Svo tekur hún líka frí á föstudaginn. Það er svo stuttur dagur.

Kristín Júlía varð 3 mánaða í vikunni. Hún virtist nú ekki kippa sér mikið upp við það. Tók þessu með mikilli ró. Hún fílar alveg í tætlur að fara með okkur í ungbarnasund og Auður er ekki minna hrifin. Hún er farin að kafa. VIð verðum að fara að kaupa svona sundgleraugu fyrir hana, svo hún geti séð í kafi. Hún svamlar orðið heilmikið. En missir nú stundum þolinmæðina af því þetta gengur ekki alveg nógu hratt. Hún er farin að tala mikið meiri íslensku. Sennilega hefur það áhrif að Helga er hjá okkur og við tölum meira. Hún er búin að vera mjög dugleg að föndra undanfarið hjá dagmömmunni. Hefur komið heim með alls konar páskaskraut.

Jæja ætli við látum þetta ekki nægja í bili

Kveðja

Gummi, Ragga og restin af genginu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband