15.4.2012 | 17:49
Vorverkin hafin
Kæru bloggvinir
hér hefur ekki verið slegið slöku við, frekar en fyrri daginn. Við erum búin að klára kanínugarðinn. Þeim var hleypt út í dag, og voru ekkert smá ánægðar með lífið. Þetta var voða munur fyrir þær. Það var heldur þröngt á þeim fyrir. Nú er bara að sjá hvort girðingin haldi þeim inni. Það á reyndar eftir að setja upp þakrennu, svo það rigni ekki niður á þær, en því verður bjargað fljótlega. Frúin reif upp jarðaberjaplönturnar og setti niður í bakka. Það verður spennandi að sjá hvort þær lifa það af. Það er ómögulegt að hafa þær í matjurtagarðinum af því þær breiða svo úr sér. Það var nú planið að setja niður maísplöntur, og setja yfir þær plast, en það vannst ekki tími til þess. Það er kannski ágætt að bíða aðeins, af því það er ennþá smá næturfrost.
Síðasta mánudag fórum við í göngutúr með íþróttafélaginu. Auður fékk að sitja í hjá vini sínum frá dagmömmunni. Henni þótti það nú ekki leiðilegt. VIð gengum rúma 5 km og það var bara mjög gaman. Eftir göngutúrinn var svo boðið upp á kaffi og kökur. Frúin bakaði tvær kökur. Auður var að leika við vin sinn. Eða hún reif í hendina á honum og dró hann út um allt. Reyndi svo að troða í hann köku, við lítinn fögnuð. Hann reyndi að mótmæla, en hún var ekki á því að gefast upp. Það verða viðbrigði þegar hún þarf að fara í leikskóla og finna sér nýja leikfélaga.
Þegar við vorum að vinna í garðinum í dag, komu krakkar sem eru að flytja hér á bak við. Þau vildu skoða kanínurnar. Ein stelpan var hjá sömu dagmömmu og Auður. Þeim fannst rosa spennandi að vera inni hjá kanínunum og tala við þær og gefa þeim gras að borða. Svo vildi Auður fara heim til krakkanna að leika. Hún var nú send í fylgd með fullorðnum. Það er vonandi að þær geti leikið eitthvað saman í sumar. Stelpan er nokkrum mánuðum eldri en Auður og álíka mikil skessa, svo þær ættu að passa vel saman. En við sjáum til. Það breytist nú sennilega mikið þegar hún byrjar í leikskóla.
Annars gengur hér allt sinn vanagang. Búðirnar í Gram opnuðu kl. 8 í gærmorgun. Við drifum okkur í eina búð á leiðinni í sund. Það vildi svo "skemmtilega" til að það var ljósmyndari á staðnum að taka myndir af þessum viðburði. Það var boðið upp á rúnstykki og kaffi og hann vildi endilega taka myndir af okkur við að borða. Við ætluðum bara að skjótast í búðina og gá að strigaskóm á Auði, en í staðinn kom mynd af okkur í dagblaði hér í sveitafélaginu. Það eru vonandi ekki allir sem hafa lesið blaðið. Það búa um 30-40.000 manns í öllu sveitafélaginu. Ekki nóg með myndina, heldur skrifaði ljósmyndarinn nöfnin okkar líka, svo maður gat ekki einu sinni verið nafnlaus. Hann klúðraði reynar nafni frúarinnar. Bóndinn skrifaði nöfnin okkar á blað og sýndi ljósmyndaranum og hann hélt að bóndinn héti Jón Erlendsson Ragnhildur Magnúsdóttir. Honum fannst það pínu langt! :). Við drifum okkur í að kaupa blaðið í morgun eftir að vinnufélagi bóndans benti honum á að hann væri í dagblaði dagsins. Við áttum ekkert von á að myndin kæmi af því ljósmyndarinn átti eftir að fara í fleiri búðir. En honum hefur sennilega þótt við svona rosalega myndarleg! :) Bóndinn ætlaði að reyna að skanna myndina inn, svo aðrir gætu notið hennar líka!. Það þarf nú líka að fara að henda inn nýjum myndum af öllum framkvæmdunum. Vonandi vinnst tími til þess í vikunnni.
Jæja ætli við látum þetta ekki duga í bili
Kveðja frá fræga fólkinu í Tiset
Athugasemdir
Heil og sæl
Gaman að heyra af frægðarsögum ykkar, verður nokkuð þverfótað fyrir "papparössum" í sumar :)
Það er margt líkt með þeim bræðrum, Bragi komst í blöðin líka en reyndar fylgdi ekki mynd með:( Hann var að kvarta yfir auglýsingaskrumi KFC á Facebook og RUV hafði samband við hann og það birtiast á ruv.is.
Kveðja úr Garðinum
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 15.4.2012 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.