22.4.2012 | 12:50
Kartöfluniðursetning
Kæru bloggvinir
hér hefur verið ansi mikið rok undanfarið, og frekar kalt. Í dag hefur rignt frekar mikið, en við skelltum okkur í að setja niður kartöflur, rófur og maís. Það er búið að breiða yfir þetta plast, af því það er ennþá smá næturfrost hérna, svo allur er varinn góður. Við ætlum svo að reyna að kaupa eins og eitt bréf af gulrótum og setja niður. Auði finnst þær alveg rosalega góðar og étur þær beint upp úr garðinum.
Í gær kom barnsfaðir Helgu Rutar í heimsókn, hann ætlar að vera hérna í rúma viku, svo hér er alltaf fjör. Bóndinn er eitthvað að plana að nýta hann í að skipta um járn á bílskýlinu. Auður er algjörlega ástfangin af manninum og sér ekki sólina fyrir honum. Hún segir Ísak í öðru hverju orði og eltir hann út um allt. Það verður ekkert grín þegar hann fer aftur heim. Hún tekur oft miklu ástfóstri við karlmenn sem eru svona frekar þögulir og rólegir. Hún er líka mjög hrifin af manni dagmömmunnar sem dálítið sama týpa. Hann segir ekki mikið, svona venjulega.
Í gær komu Íslendingar í heimsókn. Gamall vinnufélagi bóndans er að flytja til Danmerkur. Þau eru að flytja til Sönderborg, sem er 70 km héðan. Þau eiga stelpu sem er ári eldri en Auður Elín. Þær léku sér voða fallega saman hér í gær og kom bara nokkuð vel saman. Svona miðað við að þær voru að hittast í fyrsta skipti. Við verðum að reyna að leyfa þeim að hittast eitthvað aftur. Auði finnst voða gaman að hafa einhvern að leika við.
Við vorum að fá bréf frá leikskólanum sem Auður er að fara á. Hún getur ekki byrjað fyrr en 1 ágúst. Við vorum búin að skipuleggja sumarfríið okkar þannig að hún gæti byrjað í leikskólanum viku fyrir mánaðarmótin. Við verðum því að reyna að breyta sumarfríinu okkar, eða finna einhverja lausn á þessu. Það er alveg ótrúlegt að þeir hafi ekki getað látið okkur vita eitthvað fyrr. En svona er nú margt hérna í sveitinni. Það verður bara að reyna að leysa málið.
Annars hefur allt verið með kyrrum kjörum hér síðustu vikuna. Allt gengið sinn vanagang.
Bóndinn er búinn að setja inn myndir, bæði af fólki og nýjasta leiktækinu. Hann keypti sér sláttutraktor í síðustu viku. Hann er búin að vera að safna sér fyrir svoleiðis lengi, svo hann var mjög ánægður að geta loksins látið verða af því að kaupa hann. Það verður nú líka mikill munur að slá garðinn með þessu tryllitæki. Auði fannst þetta líka mjög áhugavert og fékk að sitja og stýra sjálf.
Jæja látum þetta nægja að sinni
Kveðja
Gummi, Ragga og restin af genginu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.