29.4.2012 | 13:15
Rok og rigning
Kæru bloggvinir
vorið ætlar eitthvað að láta á sér standa þetta árið. Það er ennþá frekar kalt í lofti og oft rok. Við erum nú samt búin að vera úti í mestallan dag. Auður er aðeins farin að geta hjólað á þríhjóli og það er voða sport. Hún er svo sjálfstæð barnið að hún vill helst ekkert að maður hjálpi, en verður svo ferlega pirruð þegar hún kemst ekki áfram. En hún hlýtur nú að læra þetta. Hún hjólar líka hjá dagmömmunni.
Bóndinn og Ísak eru búnir að vera að vinna í skúrnum alla þessa viku. Það er búið að skipta um járnið á þakinu en það er eftir að klæða hluta af honum að utan og klára allt smotteríið. En gott allavega að fá hjálp við að skipta um þakið. Bóndanum tókst nú að hrynja niður úr stiganum, þegar hann var að rífa gamla þakið af. Það var nú ekki til að bæta bakið á honum. Hann hefur verið algjörlega að farast síðan.
Í gær var ákveðið að nýta tækifærið fyrst við erum með barnapíur og við hjónaleysin fórum fyrst út að borða og svo í bíó. VIð fórum á krá hérna rétt hjá. Þar var hlaðborð með 10 mismunandi kjöttegundum. Við fengum meðal annars kengúrukjöt og dádýrakjöt. Kengúran var rosalega góð, en dádýrakjötið var nú pínulítið þurrt. Við átum á okkur gat og keyrðum svo í bíó. Það er lítið bíó á sama stað og við förum í sund. Það er nú enginn bíómenning hérna, svo það voru bara 6 hræður í bíó og við vorum þau einu sem höfðum keypt okkur popp og kók, svo manni leið bara illa þegar maður byrjaði að bryðja poppið. Það var voða notalegt að geta farið eitthvað, bara tvö. VIð höfum nú ekki gert það síðan Auður Elín fæddist, ekki nema svona þegar við höfum farið í jólahlaðborð með vinnunni og svoleiðis. Það var ákveðið að reyna að vera duglegri við þetta framvegis. Auður hagaði sér auðvitað alveg eins og engill, eins og alltaf þegar hún er í pössun. Hún er svo bara yfirleitt frekar ómöguleg daginn eftir.
Það er enn verið að reyna að finna lausn á sumarfrísvandamálinu, en vinnuveitandi bóndans er nú ekki mjög liðlegur og vill ekki koma til móts við hann. En þetta hlýtur að leysast. Annars verður frúin bara að fara í frí, viku seinna en bóndinn, þá getur hún vanið Auði á leikskólann.
Á morgun fer Ísak svo heim aftur. Auður Elín verður örugglega mjög leið yfir því. Hún er ennþá alveg með stjörnur í augum yfir manninum. Það koma ekki fleiri gestir fyrr en í sumar. Svo hún verður að hanga með okkur gamla settinu þangað til.
Bóndinn er farinn á fótboltaleik, það er allt brjálað að gera í því þessa dagana.
Annars er nú víst ekki mikið nýtt að frétta héðan.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.