Heimsóknahelgi

Kæru bloggvinir

hér hefur verið fínt veður í dag, en frekar kalt og hryssingslegt í vikunni. Það er nú samt oft betra veður í miðri viku, en um helgar. En nú hlýtur vorið að fara að koma. Kartöflugrösin eru komin ágætlega upp og það er búið að bera áburð á, svo nú hlýtur uppskeran að verða rosaleg.

Annars hefur verið nóg að gera í heimsóknum um helgina. Í gær fengum við heimsókn frá íslenska vinnufélaga Gumma, sem er nýfluttur til Sönderborgar. Þau komu í kaffi, en ílengdust framyfir kvöldmat. Auður var voða hrifin af að fá leikfélaga. Þau eiga stelpu sem er ári eldri en hún. Þær ná alveg ágætlega saman. Auður er sem betur fer ekki mannafæla, svo hún var farin að skríða í fangið á fullorðna fólkinu.Í morgun var okkur svo boðið í morgunkaffi hjá kunningjum okkar. Þau eru með 4 börn í fóstri. Það minnsta er 2 mánaða. Það var hringt í þau og þau spurð hvort þau gætu sótt barnið á sjúkrahúsið eftir nokkra klukkutíma. Þau urðu því að vera snögg í snúningum og redda barnabílstól og því nauðsynlegasta. Barnsmóðirin hefur 3 mánuði til að finna út úr því, hvor hún vill hætta við að gefa barnið. Nú næst svo bara ekkert í hana, svo hún getur ekkert sagt til, hvað hún vill. En hjónin sem við heimsóttum fengu allavega að vita að þau væru of gömul til að ættleiða hann, svo þau búast við að láta hann frá sér fyrr en síðar.

Þegar við vorum búin að éta á okkur gat þarna kíktum við í kaffi hjá Ástu. Þar lentum við í franskri súkkulaðiköku og rjóma. Svo við erum allavega ekki illa haldin eftir daginn. Við mæðgurnar fórum svo í langan göngutúr eftir þetta allt saman, en bóndinn fór á fótboltaleik. Þetta verður nú bara stutt vinnuvika, því það er uppstigningardagur á fimmtudag og svo taka flestir sér frí á föstudaginn. Það má búast við að við finnum okkur eitthvað að gera þessa frídaga. Það þýðir ekki að sitja með hendur í skauti. Okkur langar voða mikið að reyna að redda okkur möl í innkeyrsluna. Það er voðalega leiðilegt að hafa þetta svona.

Hjónin hérna á móti okkur eru að skilja og konan að flytja inn til Gram með stelpurnar þeirra. Við fréttum þetta nú bara í vikunni. Ef konan hefði ekki sjálf sagt okkur þetta, hefðum við ekkert vitað. Þetta er auðvitað voðalega leiðilegt. En kannski finna þau eitthvað út úr þessu. Hann ætlar að búa áfram í húsinu, svo við þurfum allavega ekki að pæla í því strax.

Jæja það er nú mest lítið annað að frétta héðan.

Kveðja

Gummi, Ragga og Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband