27.5.2012 | 12:04
Sól, loksins sól
Kæru bloggvinir
þá er runninn upp hvítasunnudagur, bjartur og fagur. Það er búin að vera alveg rjómablíða hér síðustu vikuna og um helgina. Það var nú líka alveg komin tími á að maður fengi smá sumar.
Bóndinn er næstum búinn með skúrinn. Það vantar bara að kaupa fúavara á hann og svo er meiningin að fúaverja líka rólurnar og eitthvað annað smálegt. Þeir eru bara venjulega mjög dýrir svo við erum að bíða eftir að þeir komist á einhver tilboð. Bóndinn er búinn að fá einhvern mann til að koma og kíkja á bakgarðinn. Hann er búinn að eitra illgresið og ætlar að koma einhvern tíma á næstunni og slétta úr þarna á bak við. Það verður nú enginn smá munur. Þetta er hreinlega skammarlegt, hvernig þetta lítur út.
Í gær fórum við á markað hérna inn í Gram. Það var svo heitt og svo mikið af fólki að við drifum okkur fljótlega heim. Auður fékk að fara í nokkur tívolitæki, henni fannst það nú ekki leiðilegt. Hún fékk líka að fara á hestbak. Það er víst reiðskóli hérna rétt hjá og það kostar ekkert mjög mikið að vera í honum. En maður þarf að vera 4 ára, svo það verður að bíða þar til á næsta ári. Eftir allt þetta fórum við heim til Ástu og grilluðum og borðuðum rosa fínan mat. Eftir allt átið var svo haldið heim og horft á eurovision. Það er nú alltaf ákveðin stemning í því.
Bóndinn og nágranninn eru búnir að klippa hekkið hérna milli húsanna, hressilega niður. Þetta lítur út eins og eftir hryðjuverk. Við áttum von á því að nágranninn hinu megin fengi áfall, en hún er ekki búin að skamma okkur ennþá. Það er vonandi að þetta verði til þess að hekkið þéttist og það verði skaplegra að klippa þetta næstu ár. Það er alveg skelfilega mikil vinna að klippa hekk sem aldrei hefur verið klippt. Stofnarnir eru svo sverir að það verður að nota vélsög til að klippa það. Það var rosa fínt að fá nágrannann til að hjálpa. Hann virðist vera ansi ofvirkur, sem í þessu tilfelli kom sér bara vel fyrir okkur.
Í dag var svo aftur farið á markaðinn og í þetta skifti var keypt eitthvað smotterí. Það var ekki svo mikið af fólki, svo við nenntum meira að skoða. Það á svo að reyna að ráðast í að þrífa gluggana á eftir. Maður sér varla út orðið. Kartöflurnar og grænmetið rjúka upp núna, þegar það er farið að hlýna. Rabarbarinn er líka búinn að taka þvílíkan kipp.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
Kveðja
Tisetgengið
Það spáir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.