3.6.2012 | 18:39
Storkurinn kemur til Tiset
Kæru bloggvinir
Héðan er allt gott að frétta. Það hefur kólnað í veðri aftur, við vorum búin að slökkva á kyndingunni í húsinu, en neyddumst til að kveikja á henni aftur, því það var svo kalt hérna á nóttinni. Það er vonandi að við fáum bráðum eitthvað meira sumar. Af fréttum að dæma heiman frá Íslandi er veðurblíðan hjá ykkur. Þið megið alveg senda okkur smá þegar þið eruð búin að nota hana.
Annars eru nú sennilega stærstu fréttirnar héðan þær að storkurinn er væntanlegur til Tiset í byrjun desember. Við vildum ekkert segja frá þessu fyrr en við værum búin að fara í sónar eftir 12 vikur. Við fórum í það á föstudaginn. Við þurftum að keyra alla leið til Sönderborg, sem er klukkutíma keyrsla. Þeir vildu endilega láta lækni kíkja á frúnna, við vitum eiginlega ekki af hverju, kannski bara af því hún er orðin svo gömul. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, en frúin fékk að vita að hún ætti að drekka 1/2 líter af vatni klukkutíma fyrir skoðun og mátti ekki pissa þvi. Það var nú allt í lagi, nema af því að það var rúmlega klukkutíma bið eftir að komast í skoðunina, svo frúin var búin að halda í sér í tvo tíma. Þegar hún svo loksins komst í skoðunina, þá var pissublaðran allt of full, svo ljósmóðirin sá ekki nógu vel. Svo frúin þurfti að pissa helmingnum af innihaldi blöðrunnar. Já einmitt, það er mjög auðvelt! :) En þetta gekk allt saman vel og krakkinn var mjög sprækur. Gat alls ekki verið kyrr, meðan það var verið að skoða hann. Snéri svo bara rassinum í okkur í lokin. Það er svo aftur skoðun eftir 6 vikur og svo er ekki fleiri sónarskoðanir, nema eitthvað sé að.
Annars hefur allt gengið sinn vanagang hér. Það verður nú erfitt að fara að vinna heila vinnuviku eftir alla þessa helgidagatörn undanfarið. En það er svo sem ekki langt þangað til við förum í sumarfrí, svo við hljótum að lifa þetta af. Bóndinn er byrjaður að smíða kanínubúr. Þau eru frekar dýr ef maður ætlar að kaupa það tilbúin, svo hann vill frekar reyna að smíða þetta sjálfur. Kartöflugrösin og grænmetið ríkur upp núna, eftir að sólin er farin að skína meira. En þetta virðist nú vera seinna á ferðinni en síðustu ár.
Næst á dagskrá er svo að undirbúa afmæli ungfrúarinnar. Það er stefnt á að halda upp á það þarnæstu helgi. Hún skilur sennilega ekki alveg út á hvað það gengur, en verður örugglega ánægð með athyglina og pakkana. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig hún tekur því að eignast lítið systkini. Hún er nú vön að vera mjög frek á mömmu sína, svo það verða mikil viðbrigði fyrir hana. En hún hlýtur að komast í gegnum þetta eins og öll önnur börn sem eignast systkini.
Svo fer nú að styttast í að Helga og Kristín Júlía fari til Íslands. Það verður nú voða skrýtið að hafa þær ekki hérna.
Jæja ætli sé ekki best að fara að koma einhverju í verk hér á bæ
Kveðja
Tisetgengið og bumbubúinn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.