Afmælishelgi

Kæru bloggvinir

gleðilegan þjóðhátíðardag. Hér hefur nú verið heldur betur verið tekið á því í veisluhöldum um helgina. Við héldum nú ekkert upp á þjóðhátíðardaginn, en það voru settar út íslenskar veifur í tilefni afmælis ungfrúarinnar. Það verður látið duga í ár.

Veisluhöldin byrjuðu á föstudaginn þegar við grilluðum fyrir íslensku vini okkar, sem voru að fara í frí til Íslands í gær, og gátu því ekki verið með í dag. Í gær komu svo kunningjar okkar í morgunkaffi, þau voru líka upptekin í dag. Í dag kom svo restin af fólkinu. Auður er ekkert mjög ósátt við að fá pakka 3 daga í röð. Hún hefur tekið þessu ótrúlega vel og er búin að vera í rosa stuði. Það komu nokkrar stelpur í afmælið hjá henni í dag og þær léku sér nánast alveg án vandræða. Það var ekkert hægt að vera úti, af því það rigndi töluvert. Það er alveg spurning um að næsta afmæli verði annaðhvort haldið í tjaldi úti í garði, eða í samkomuhúsinu hérna í bænum. Það er ekki nóg pláss fyrir allt þetta fólk, ef það á að koma sama daginn. Á morgun verður svo fjórði dagur í afmæli, því þá heldur dagmamman smá afmælisveislu fyrir hana og hin börnin. Hún ætti að vera búin að fá nóg af veisluhaldi eftir þetta allt saman. Foreldrarnir eru allavega orðnir lúnir eftir öll þessi veisluhöld. 

Auður er orðin voða dugleg að vera bleiulaus. Við höfum verið að reyna nokkuð lengi, en hún hefur sennilega bara ekki verið tilbúin. Þetta er allavega farið að ganga stórslysalaust. Það er aðallega þegar hún er úti að hún gleymir að pissa. Eða þegar hún er upptekin af að leika sér. Hún er orðin voða hrifin af að leika með dúkkurnar sínar. Hún hefur aldrei viljað sofa með dúkkur eða bangsa, en núna sefur hún alltaf með dúkku. Hún getur helst ekki farið út úr húsi án þess að vera með dúkku. Hún vill nú ekki skíra hana og þær mega ekki vera í fötum.

Það er farið að styttast í að við komumst í sumarfrí. Þurfum að vinna 3 vikur og svo er maður kominn í 3.vikna sumarfrí. Það verður nú ekki lengi tómt hérna á hótelinu hjá okkur. Helga og Kristín Júlía fara heim á fimmtudaginn, og svo verður pása í 3 vikur. Þá kemur bróðir Gumma og konan hans og Elli Jón kemur líka á svipuðum tíma. Þeim verður öllum hent upp á loft. Það er nú bara hálf kalt þar uppi, þó það sé komið sumar. Við erum ennþá að kynda húsið, sem er mjög óvanalegt. Það er vonandi að sumarið láti sjá sig þegar við förum í frí.

Kartöflugrösin hjá okkur rjúka upp. VIð fengum að vita hjá einum kunningja okkar að við hefðum sett þau of þétt niður, en við verðum að sjá til, hvað kemur út úr þessu. Við verðum þá bara að hafa meira bil á milli á næsta ári. Maður lærir bara af þessu. Þetta er nú ekki svo stór garður að það sé neitt mikið í húfi ef þetta misheppnast. Rófugrösin eru meira að segja líka farin að taka kipp, þau komust aldrei almennilega í gang á síðasta ári.

Jæja ætli sé ekki best að reyna að fleygja sér í sófann smástund.

Kveðja

Gummi, Ragga og gengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband