Tiltekt

Kæru bloggvinir

Eins og venjulega er rigning hér hjá okkur. Það er búið að rigna mestalla helgina. En það voru nokkrir ágætir dagar í síðustu viku. Maður nýtur þess bara ekki þegar maður er ekki í fríi.

Annars er ansi tómlegt hérna núna. Helga og Kristín Júlía fóru heim til Íslands á fimmtudaginn. Auður er búin að vera að tala um að hún vilji fara að fljúga síðan. Hún skilur ekkert í því að við erum ekki til í að senda hana eina til Íslands.

Rigningartíðin hefur verið nýtt til að taka til. Við þurftum að flytja Auði aftur inn í sitt herbergi og svo urðum við að kaupa nýja tölvu, af því hin var að gefa upp öndina. VIð keyptum fartölvu og þurfum því ekki að hafa tölvuborð og stól hérna inni í stofu. Það var engin smá munur að losna við þetta. Tölvuborðið og stóllinn fékk að fjúka á haugana, enda búið að endast ansi vel. Það ætti að verða auðveldara að þrífa í kringum sig núna. Svo er eftir að ráðast í að taka til uppi á lofti. Það er einhvern veginn þannig að draslinu er bara hent þar upp og svo er ekki tekið til. En nú þarf að fara að gera eitthvað í þessu áður en næstu gestir koma. Það eru nú alveg 3 vikur í það.

Auður er alveg að tapa sér í sjálfstæðisbaráttu. Hún vill gera allt sjálf og maður má helst ekki koma nálægt henni. Henni gengur voða vel að vera bleiulaus. Hún sefur ennþá með bleiu og auðvitað gerast stundum slys, en samt ótrúlega lítið. Hún skildi ekkert í því að hún átti að fara að sofa í sínu herbergi í gær og var sennilega ekki eins hrifin og við fullorðna fólkið. Hún neitar að láta lesa fyrir sig núna. Hún situr sjálf, flettir bókum og blaðrar eitthvað. Bóndinn þarf að setja inn myndir og video af henni á næstu dögum. Auður þarf að vera heima á morgun og á fimmtudaginn af því að dagmamman er í fríi. Henni finnst það nú örugglega ekkert spennandi að þurfa að hanga með okkur. Við förum oft með hana niður á leikvöllinn hérna rétt hjá, en á föstudaginn réðust hundarnir á horninu á fullorðna konu og bitu hana. Sem betur fer kom einhver að þessu og gat bjargað henni. Hún slasaðist sem betur fer ekkert alvarlega. En við ætlum allavega ekki að hætta á að þeir hoppi aftur yfir girðinguna og bíti okkur. Vonandi verður þeim lógað. Það er nú samt ólíklegt.

Við skelltum okkur í sund í morgun. Auður elskar að synda, svo við erum að reyna að fara svona nokkrum sinnum. Það er bara mjög dýrt að fara í sund hérna, af því það er svo dýrt að hita vatnið.

Jæja man ekki meira í bili

kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl

Nú fer að styttast í innrásina og eins gott að allt verði skúrað og bónað fyrir gestina.   Hér er heldur betur búið að vera gott veður og sólseturshátíðin var haldin um helgina í þessu fína veðri. Ég var svo í viku ferð í Austurríki í 25 - 35 stiga hita alla daga. Aldrei verið svona gott veður í júní þar sögðu heimamenn. Svo við hljótum að koma með góða veðrið með okkur til Danaveldis.   Verðum í sambandi um næstu helgi. Kveðja úr Garðinum.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 25.6.2012 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband