Tiset bed and breakfast

Kæru bloggvinir

Það hefur nú aðeins sést til sólar hér um helgina og verið bara ágætlega hlýtt. Við vonum að það sé eitthvað að rætast úr veðrinu. Það væri allavega ágætt að fá eitthvað betra veður þegar við förum í sumarfrí. Nú er bara eftir að vinna í eina viku og svo er maður komin í frí.

Sumarfrí þýðir líka að það fara að koma gestir í stríðum straumum. Bragi og Gunna koma næsta mánudag og svo kemur Elli líka í næstu viku. Það var ráðist í að taka til á loftinu í morgun, svo gestirnir fengju ekki áfall yfir öllu draslinu. Þetta er orðið boðlegt núna. Það er líka eins gott að það hlýni eitthvað því annars er ansi kalt að liggja þarna uppi.

Við fórum í leiðangur í síðustu viku og keyptum notað rúm handa Auði Elínu. Þetta er svona pínu hátt, en hún hlýtur að geta vanist því. Það á að reyna að venja hana á að sofna sjálfa, í sumarfríinu. Það verður nú spennandi hvernig það á eftir að ganga. Henni á allavega örugglega eftir að þykja gaman að leika sér undir rúminu.

Bóndinn á að keyra bæjarstrætó í næstu viku. Það verður nú spennandi. Þeir töldu nú óþarfa að kenna honum á leiðarnar. Hann gæti bara spurt farþegana, hvert hann ætti að fara. Hann fékk nú í gegn með hörku að fá einhverjar leiðbeiningar, svo þetta ætti að ganga upp.

Í gær réðst bóndinn í að skera upp rabarbarann. Hann hefur þvílíkt tekið við sér. Við skárum ekki allt, en þetta voru samt rúmlega 5 kíló. Svo er líka búið að taka upp nokkrar kartöflur og vorlauk. Kartöflurnar eru nú ennþá smáar, en mjög bragðgóðar. Við höfum víst sett þær of þétt, en við sjáum til hvernig þetta kemur út. Það er voða huggulegt að geta farið út í garð og tekið upp í matinn og það liggur ekki mikil vinna í að hugsa um þetta. Restin af hekkinu var líka klippt niður, svo nú lítur þetta allt saman orðið betur út.

Svo er þetta síðasta vikan hennar Auðar hjá dagmömmunni. Það verður nú skrýtið að fara ekki með hana þangað eftir sumarfrí. Auður er sjálf alveg tilbúin í að fara í leikskólann. Hún er mjög spennt yfir þessu og talar oft um það. Vonandi bara að það gangi jafn vel þegar á hólminn er kominn. Hún var í fríi hjá dagmömmunni á fimmtudaginn og þá fórum við á fund hjá leikskólanum. Þetta leit mjög vel út. Mjög stór garður fyrir börnin og svo eru þau með hænur. Sama dag fór frúin svo með dótturina í 3 ára skoðun. Hún stóðst víst allar kröfur og er töluvert hærri en jafnaldrar sínir, 103 cn og 15 kg. Það var engin sprauta í þetta skiptið, sem betur fer. Það verður í næstu skoðun þegar hún verður 4 ára.

Jæja ætli maður ætti ekki að reyna að nýta sér að það er ekki ausandi rigning og fara út í góða veðrið.

Kveðja
Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband