16.9.2012 | 17:35
Katta og kanínuævintýri
Kæru bloggvinir
Þá er runninn upp enn einn vætusamur sunnudagurinn. Síðasta vika hefur boðið upp á hressilegt haustveður, bæði með rok og rigningu. En við erum orðin öllu vön, svo við kippum okkur ekkert mikið upp við þetta. Það sem verra er, að það er farið að dimma ansi mikiið, bæði á morgnana og kvöldin.
Það hefur ýmislegt gengið á í vikunni og um helgina. Bóndanum hefur lengi langað í grábröndóttan fresskött, og var búin að spyrja nágrannana, hvort þeir þekktu einhvern sem þyrfti að losna við svoleiðis. Þau komu svo og voru búin að finna tvo fressketti sem voru að leita að nýju heimili, af því foreldrarnir voru að flytja í blokk, þar sem maður mátti ekki vera með ketti. Við fórum því á miðvikudaginn og kíktum á þá og tókum með okkur heim. Okkur var sagt að annar væri mjög kelinn og hinn frekar styggur. Kötturinn sem átti að vera gæfur, settist upp í glugga hjá okkur og sat þar í heilan sólarhring, án þess að borða eða pissa eða neitt. Daginn eftir var hann búinn að pissa smá á gólfið. Honum var nuddað upp úr pissinu og héldum við að vandinn væri leystur, en daginn eftir var hann búin að pissa allt út í einu horninu og lá svo sjálfur í sínu eigin hlandi. Honum var hent út og hefur ekki sést síðan. Hann var greinilega eitthvað skrýtinn, en auðvitað er ekkert gaman að týna kisunni svona. Hinn kötturinn virðist vera að aðlagast ágætlega. Hann og læðan okkar eru nú ekkert ofurgóðir vinir, en það hlýtur að koma. Vvandið höfum svo líka verið í vandræðum með kanínurnar. Þær hafa verið að týnast. Sennilega hefur refur eða eitthvað dýr hoppað yfir girðinguna og hirt þær. Það sést hvorki tangur né tetur eftir af þeim. Svo í staðinn fyrir að hafa 6 kanínur eru núna eftir 3. Við erum búin að breiða net yfir girðinguna hjá þeim og það virðist halda óargadýrunum frá, allavega ennþá.Vonum það gangi upp.
Á föstudaginn var farið og sótt lambakjöt hjá bóndanum sem við verslum af. Það ætti því að vera nóg til af lambakjöti næstu mánuðina. Á laugardaginn var farið í sund um morguninn og eftir hádegi fórum við í heimsókn til vina okkar í Sönderborg. Þau voru líka að fá lambakjöt, svo við renndum með það til þeirra. Í morgun var svo farið á stóran markað hérna rétt hjá. Bóndinn er búin að slíta upp klossunum sínum og búin að bíða allt sumarið eftir að komast á markaðinn og kaupa nýja. Það var algjör fýluferð, því þeir áttu ekki skó í hans stærð. En Auður Elín fékk að prófa nokkur tívolítæki og var hæstánægð. Eftir hádegi var svo farið í afmæli hjá Maju Elísabet í Kolding. Það var mjög fínt. Þannig að það má segja að við höfum ekki legið í sófanum þessa helgina! :)
Jæja best að prófa sófann
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.