7.10.2012 | 09:18
Laufrigning
Kæru bloggvinir
það er ekki nóg með að það rigni hér eldi og brennisteini nánast alla daga, heldur er farið að rigna laufblöðum líka. Við fengum reyndar gott veður í gær en næsta vika bíður ekki upp á mikið annað en rigningu. Maður kemst ekki einu sinni í að klára að gera það sem þarf að gera fyrir veturinn. Við ætluðum að reyna að færa rabarbarann og ganga frá útidótinu, en það er erfitt að komast í það í þessari tíð.
Kanínan hafði ekki sést í nokkra daga þegar hún birtist allt í einu hér í garðinum í síðustu viku. Hún heldur sig mikið hjá nágranna okkar. Það er nú dálítið furðulegt, því þau eiga stóran hund sem er alltaf að elta bæði kanínuna og kettina okkar. En kanínan er allavega ekki á þeim buxunum að flytja heim aftur. Hún verður kannski til í það þegar fer að kólna meira. Það var farið með köttinn i geldingu í vikunni. Það er nú ekki gefið. En nauðsynlegt ef maður vill halda honum heima við og sleppa við að hann geri læðuna okkar kettlingafulla. Hann tók þessu nú eins og maður og var orðinn hress daginn eftir. Hann er búinn að fá að fara út og virðist nú ekkert fara mjög langt. Hann er voða kelinn og skemmtilegur.
Í gær var nóg að gera. Við stelpurnar fórum í sund og bóndinn fór að laga hurðina á bílnum, svo nú er hægt að loka henni. Það er nú frekar nauðsynlegt að geta lokað bílstjórahurðinni! Svo fór bóndinn á fótboltaleik seinnipartinn, svo við sáum nú ekki mikið af honum í gær. Í dag er svo búið að bjóða okkur í afmælisveislu hjá íslenskum vinum okkar. Það verður eflaust almennilegt kaffiborð.
Nú á frúin bara eftir að vinna í eina viku. Það er nú bæði gleðiefni og líka pínu skrýtið. Skrýtið af því frúin er nú ekki sú besta að slaka á, svo það verður spennandi að sjá hvernig það á eftir að ganga. Það er nú heldur ekki allir sjúklingarnir í vinnunni jafn hrifnir af þessu uppátæki. En þetta gengur nú venjulega allt ágætlega.
Jæja best að fara að kíkja til veðurs.
Kveðja úr regnlandi
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.