21.10.2012 | 13:27
Haustverk
Kæru bloggvinir
Þá er haustfríið að verða búið hjá okkur. Bóndinn hélt hann væri í fríi, en komst svo að því að hann þurfti að vinna á morgnana og seinnipartinn. Það hefur ýmislegt verið brallað. Það er búið að taka upp rabarbara og gera sultu. Færa rabarbaraplönturnar og svo er verið að fara að gera bæði kæfu eða rúllupylsu. Það verður að klára þetta gamla kjöt úr kistunni.
Við hjónaleysin fórum á hótel í eina nótt í vikunni. Það var alveg meiriháttar að geta aðeins kúplað sig frá öllu. Auður var í pössun og hegðaði sér auðvitað alveg ótrúlega vel. Eins og alltaf þegar hún er í pössun. Við erum búin að föndra heil ósköp í fríinu. Bæði leir og mála með fingramálningu. Þetta hefur verið voða vinsælt. Svo er búið að útrétta ýmislegt sem hefur beðið lengi. Við komumst að því að maður eyðir miklu meiri pening þegar maður hefur ekki Auði með. Það er miklu meiri tími til að kíkja á hitt og þetta og láta freistast.
Svo er loksins búið að ganga frá gluggunum á húsinu. Það var alltaf eftir að kítta í kringum þá. Það er enginn smá munur, bæði á útlitinu á húsinu og líka að það er hlýrra hérna inni.
Kanínukarlinn sem var stunginn af, kom aftur í vikunni og var settur inn í búr. Það leið nú ekki langur tími þar til hann var búinn að brjótast út úr því. Hann náðist svo aftur, sennilega af því hann var orðinn svo svangur að hann vildi láta ná sér. Nú er hann svo inni í búri. Spurning hvað hann helst lengi þar.
Nýji kötturinn er orðinn mjög heimavanur og vill helst ekki fara út fyrir hússins dyr. Hann er voða kelinn og er mikil félagsvera.
Auður hefur verið mjög ánægð með að vera bara í fríi. Hún fer svo aftur á leikskólann á morgun. Hún er farin að sofa lengi á morgnana, svo hún verður nú sennilega ekki mjög hress með að þurfa að vakna snemma á morgun. Við fórum á flóamarkað áðan og pabbi hennar keypti bæði dúkku og risaeðlur handa henni. Það er erfitt að segja hvað henni finnst skemmtilegast að leika með.
Frúin er nú ekki alveg búin að átta sig á því að hún þurfi ekki að fara í vinnuna næstu mánuði. Það hlýtur að renna upp fyrir henni fljótlega. Hún finnur sér sennilega eitthvað að gera.
Jæja best að láta þetta nægja í bili.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.