28.10.2012 | 13:22
Kvefpest
Kæru bloggvinir
Hér hefur verið mjög fallegt veður um helgina, frost og sól. Við höfum nú ekki verið mikið úti við því Auður Elín hefur verið hálflasin, svo hún hefur ekkert getað farið út. Hún var ægilega pirruð yfir þessu í gær, en er mun hressari í dag, svo hún fer nú sennilega í leikskólann á morgun.
Það er nú senilega ekkert hættulegt að taka því rólega svona eina helgi. Það er bara frekar skrýtið að vera ekki að gera neitt sérstakt. Frúin skrapp upp á loft í morgun að kíkja á barnafötin. Hún komst að því að það þarf nú eitthvað að versla fyrir nýja barnið. Auður á mest sumarföt í minnstu stærðunum, það dugar nú ekki í kuldanum hér á veturna.
Annars hefur allt verið í föstum skorðum hér síðustu vikuna. Það þarf að reyna að slá garðinn eins og einu sinni fyrir veturinn, en það hefur ekki verið hægt fyrir rigningu. Annars er nú sennilega allt að vera klárt fyrir veturinn.
Þeir voru að færa klukkuna í nótt. Við ákváðum að halda Auði vakandi aðeins lengur í gærkvöldi, til að sjá hvort hún gæti ekki sofið lengur í morgun, en nei, hún vaknaði klukkutíma á undan áætlun. Það var ekki nokkur leið að fá hana til að sofa lengur. En vonandi kemst regla á hana aftur. Hún er búin að vera mjög góð að sofa undanfarið. En við verðum bara að sjá hvernig þetta fer. Þetta er ótrúlega pirrandi að vera að rugla svona í klukkunni. Og enginn veit eiginlega af hverju maður gerir það.
Í kvöld er planið að fara út að borða. Það er hlaðborð hér inni í Gram. Við höfum lengi ætlað að fara, en ætlum að láta verða af því núna.
Gamla kisan okkar er farin að láta sig hverfa í heilu dagana. Hún er svo móðguð yfir nýja kettinum. Hún hlýtur að vera búin að finna sér einhvern stað til að vera á. Hún er varla úti í þessum kulda sem er hér á nóttunni og á morgnana.
Enok og Jóhanna Bára eru væntanleg í stutta heimsókn á fimmtudaginn. Það verður spennandi að sjá hvernig Auði finnst það. Henni finnst nú yfirleitt voða gaman að hafa gesti.
Bóndinn er búinn að vera að taka eitthvað til í ljósmyndunum í tölvunni, svo það getur verið að hann hendi inn einhverjum myndum á næstunni.
Frúin er ennþá að reyna að venjast því að vera heimavinnandi. Hún er búin að gera jólahreingerningu á hinum ýmsu stöðum innandyra. Það er eins gott að gera það núna. Það verður ekki mikill tími þegar litla barnið er komið og jólin ofan í allt saman. Það verður nú sennilega reynt að undirbúa jólin í nóvember, svo maður þurfi ekki að pæla í því í desember.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Hæ, hæ.
Bara að kvitta fyrir lesturinn, pistillinn alltaf lesinn á þessum bæ. Hlakka til að sjá nýjar myndir fljótlega. Allt það sama hér, leiðindaveður en annars allt gott að frétta.
Kveðjur úr Garðinum
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.